Þrjú úr núverandi stjórn KSÍ gefa kost á sér áfram

Mynd með færslu
Borghildur Sigurðardóttir er annar varaformaður í stjórn KSÍ. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Þrjú úr núverandi stjórn KSÍ gefa kost á sér áfram

25.09.2021 - 22:11
Þrjú af þeim sem eiga sæti í stjórn KSÍ hafa ákveðið eftir hvatningu fólks innan aðildarfélaga KSÍ að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni. Borghildur Sigurðardóttir annar varaformaður sambandsins, Ingi Sigurðsson og Valgeir Sigurðsson verða í kjöri á aukaþinginu næsta laugardag.

Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu þremenningana sem barst RÚV nú seint í kvöld. „Við undirrituð í stjórn KSÍ höfum tekið ákvörðun um að bjóða okkur fram í bráðabirgðastjórn KSÍ á aukaþingi sambandsins þann 2. október, er mun sitja fram að Ársþingi KSÍ 2022. Það gerum við eftir hvatningu aðildarfélaga víða um land og vonumst til þess að geta lagt okkar af mörkum ásamt þeim einstaklingum sem munu tæki sæti í bráðabirgðastjórn knattspyrnusambandsins,“ segir í tilkynningunni frá Borghildi, Inga og Valgeiri.

Framboðsfrestur rennur út á miðnætti. Ekki er því enn ljóst hvernig staðfestur framboðslisti verður á aukaþinginu. Á því verður kosið um formann, átta aðalmenn stjórnar og þrjá varamenn stjórnar fram að næsta ársþingi KSÍ sem verður í febrúar 2022.

Þau framboð sem vitað er um á þessari stundu eru eftirfarandi:

Framboð til formanns:
Vanda Sigurgeirsdóttir

Framboð í stjórn:
Ásgrímur Helgi Einarsson
Borghildur Sigurðardóttir
Guðbjörg Fanndal Torfadóttir
Guðlaug Sigurðardóttir
Helga Helgadóttir
Ingi Sigurðsson
Valgeir Sigurðsson

Framboð í varastjórn:
Kolbeinn Kristinsson
Þóroddur Hjaltalín

Búast má við því að KSÍ sendi frá sér staðfestan framboðslista á morgun fyrir aukaþingið næsta laugardag. Þá koma væntanlega fleiri frambjóðendur fram en vitað er um á þessari stundu og taldir eru upp hér fyrir ofan.