Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mikil spenna í Þýskalandi

epa09485810 (L-R) Christian Social Union (CSU) chairman Markus Soeder, German Chancellor Angela Merkel, and Christian Democratic Union (CDU) party chairman and top candidate for the upcoming federal elections Armin Laschet, pose with beer steins prior the election campaign closing of the CDU and CSU in Munich, Germany, 24 September 2021. The election for the 20th German Bundestag will take place on 26 September 2021.  EPA-EFE/Sven Hoppe / POOL
 Mynd: EPA-EFE - DPA POOL
Mikil spenna virðist framundan í þýsku þingkosningunum á morgun. Jafnaðarmannaflokkurinn var lengi vel með gott forskot í skoðanakönnunum, en samkvæmt tveimur stórum könnunum sem gerðar voru í gær er ekki marktækur munur á fylgi þeirra og Kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel fráfarandi kanslara.

Önnur könnunin, sem gerð var fyrir þýsku sjónvarpsstöðina ZDF sýndi Jafnaðarmenn með fjórðungsfylgi en Kristilega demókrata skammt á eftir með 23 prósenta fylgi. Könnun Frankfurter Allgemeine Zeitung sýndi svo enn minni mun, þar sem Jafnaðarmenn voru með 26 prósenta fylgi en Kristilegir demókratar aðeins einu prósentustigi minna. Flokkur græningja hlýtur víðast hvar um 16 prósenta fylgi, Frjálslyndir demókratar um tíu til tólf prósentafylgi, þjóðernisflokkurinn AfD um tíu prósenta fylgi og Vinstri flokkurinn um fimm prósent. 

Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmanna, er enn sá sem kjósendur vilja helst sjá sem næsta kanslara. Nær helmingur svarenda í könnunum sagðist velja hann ef kosið væri um kanslara beinni kosningu. Armin Laschet, arftaki Merkel hjá Kristilegum demókrötum, naut fylgis um fimmtungs svarenda og Annalena Baerbock, leiðtogi Græningja um 16 prósent.

Merkel hefur síðustu vikuna verið á ferðalagi um Þýskaland með Laschet til að veita honum brautargengi. Í dag verða þau í Aachen, heimabæ Laschet, á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV