
Mikil spenna í Þýskalandi
Önnur könnunin, sem gerð var fyrir þýsku sjónvarpsstöðina ZDF sýndi Jafnaðarmenn með fjórðungsfylgi en Kristilega demókrata skammt á eftir með 23 prósenta fylgi. Könnun Frankfurter Allgemeine Zeitung sýndi svo enn minni mun, þar sem Jafnaðarmenn voru með 26 prósenta fylgi en Kristilegir demókratar aðeins einu prósentustigi minna. Flokkur græningja hlýtur víðast hvar um 16 prósenta fylgi, Frjálslyndir demókratar um tíu til tólf prósentafylgi, þjóðernisflokkurinn AfD um tíu prósenta fylgi og Vinstri flokkurinn um fimm prósent.
Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmanna, er enn sá sem kjósendur vilja helst sjá sem næsta kanslara. Nær helmingur svarenda í könnunum sagðist velja hann ef kosið væri um kanslara beinni kosningu. Armin Laschet, arftaki Merkel hjá Kristilegum demókrötum, naut fylgis um fimmtungs svarenda og Annalena Baerbock, leiðtogi Græningja um 16 prósent.
Merkel hefur síðustu vikuna verið á ferðalagi um Þýskaland með Laschet til að veita honum brautargengi. Í dag verða þau í Aachen, heimabæ Laschet, á lokaspretti kosningabaráttunnar.