Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kosningafjör á Íslandi frá lýðveldisstofnun

Þingsetning 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Frá lýðveldisstofnun hafa iðulega komið fram ný framboð við alþingiskosningar, þó ekki í öllum kosningum og mismörg hverju sinni. Niðurstöður skoðanakannana benda til þess að níu framboð nái mönnum á þing í yfirstandandi kosningum. 

Fyrstu kosningar á lýðveldistímanum voru haldnar árið 1946. Alþingiskosningarnar núna eru þær 24. frá lýðveldisstofnun og þær 33. frá því Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. 

Árið 1946 voru Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn í framboði; misgamlir flokkar en geta talist vera grunnurinn að „fjórflokknum“ svokallaða.

Fjórflokkakerfið

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir fjórflokkakerfið hafa náð fótfestu þegar á fjórða áratugnum. Flokkarnir á vinstri vængnum áttu eftir að klofna, breyta um nöfn, renna saman í nýjar fylkingar og sameinast á ný.

Í grunninn mynduðu þessir fjórir flokkar frá hægri til vinstri burðarásinn í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið. Jafnframt hefur nokkuð oft komið fyrir að fimmta eða jafnvel sjötta framboð komi mönnum á þing. Nú eða sjöunda til níunda. 

Stuttur líftími virðist einkenna slíka flokka en sjaldnast endist þeim örendi lengur en í eitt til tvö kjörtímabil. Kvennalistinn lifði í 16 ár. Á síðari árum virðast lífslíkur þeirra hafa aukist nokkuð. 

Fimmti áratugurinn

Árið 1946 kom fram óháð framboð í einni sýslu sem ekki kom að manni. Í þingkosningunum sjö árum síðar, árið 1953, gerðist það í fyrsta sinni að nýr flokkur utan hinna hefðbundnu fjögurra náði mönnum á þing.

Það var Þjóðvarnarflokkurinn sem hafði úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu og brotthvarf bandaríska hersins að meginmarkmiði. Hann starfaði þó áfram uns hann rann saman við Alþýðubandalagið fyrir kosningarnar 1963. Lýðveldisflokkurinn hafði ekki erindi sem erfiði í sömu kosningum.

Alls konar í boði

Á áttunda áratug síðustu aldar urðu klofningsframboð úr „fjórflokknum“ nokkuð algeng, auk þess sem fram komu mjög vinstri sinnaðir flokkar eða hreyfingar, á borð við Fylkinguna og Kommúnistaflokk Íslands.

Einnig spruttu upp fyrirbrigði sem skilgreina mætti sem „grínframboð“ af einhverju tagi. Þar má nefna Sólskinsflokkinn sem bauð fram í kosningum 1979, lofaði betra veðri og hafði það að markmiði að færa Ísland sunnar á bóginn.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna buðu fram í þingkosningunum árið 1971, fengu fimm menn kjörna, og eru talin hafa átt drjúgan þátt í falli viðreisnarstjórnarinnar eftir tólf ára setu hennar.

Samtökin héldu velli í alþingiskosningum 1974 en þurrkuðust út í kosningunum 1978 eftir talsverð innanhúsátök.

Kvennalisti, jafnaðarmannabandalag og Borgaraflokkur

Sama má segja að eigi við um níunda og tíunda áratug liðinnar aldar og jafnvel fyrstu ár þessarar þótt heldur virðist hafa dregið úr spauginu.

Í kosningum vorið 1983 náðu tvö ný framboð eyrum kjósenda, Kvennalistinn og Bandalag jafnaðarmanna sem Vilmundur Gylfason stofnaði eftir erjur innan Alþýðuflokksins.

Kvennalistinn kom þremur konum á þing 1983 og sex í kosningunum fjórum árum síðar. Þær höfðu þingkonum á að skipa allt til 1999 þegar Samfylkingin bauð fram til alþingis fyrsta sinni. Konum fjölgaði á þingi en ekki jafnhratt og víða annars staðar.

Bandalag jafnaðarmanna kom fjórum mönnum á þing 1983 sem var leiðtoganum mikil vonbrigði. Vilmundur lést um sumarið og bandalagið hans hvarf fljótt af sjónarsviðinu, enginn úr þess röðum var kjörinn á þing 1987.

Þá voru tíu framboð og sjö náðu á þing, Samtök um jafnrétti og félagshyggju, sérframboð Stefáns Valgeirssonar á Norðurlandi eystra og Borgarflokkurinn. 

Líkt og Bandalag jafnaðarmanna varð Borgaraflokkurinn til eftir innanhússerjur í stjórnmálaflokki.

Innan Sjálfstæðisflokksins hafði geisað valdabarátta um allnokkurt skeið þegar Albert Guðmundsson yfirgaf hann árið 1987. Hann sagði af sér embætti iðnaðarráðherra 4. mars 1987 vegna „meints misferlis“ eins og það var orðað í dagblöðunum.

Samdægurs tók að kvistast út um flokksstofnun og í skoðanakönnun DV undir lok mánaðarins mældist Borgaraflokkurinn með tæplega 27% fylgi. Í kosningunum fékk flokkurinn 10,9% atkvæða og sjö menn kjörna.

Aldrei áður hafði „aukaframboð“ fengið annað eins fylgi. Albert var gerður að sendiherra í París 1989 og klofnaði, tveir þingmenn hans stofnuðu Frjálslynda hægrimenn sem runnu svo saman við Sjálfstæðisflokkinn. Í kosningunum 1991 bauð hann algert skipbrot og var lagður niður þremur árum síðar. 

Breytingar á pólítíska litrófinu

Í kosningum 1991 höfðu kjósendur úr 11 framboðum að velja, þar á meðal Samtökum öfgasinnaðra jafnaðarmanna og Heimastjórnarsamtakanna. Þingmenn komu úr röðum fimm flokka, meðal þeirra Kvennalistans sem tapaði einni þingkonu frá kosningunum fjórum árum áður. 

Fjórum árum síðar fækkaði þingkonum Kvennalistans en Þjóðvaki, sérframboð Alþýðuflokksmannsins Jóhönnu Sigurðardóttur, fékk fjóra menn kjörna. Þar með voru þingflokkarnir orðnir sex.

Jóhanna hafði beðið lægri hlut fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni í formannskjöri á flokksþingi í júní 1994 og kvaddi flokkinn með orðunum eftirminnilegu „minn tími mun koma.“

Hún sagði af sér sem varaformaður flokksins og steig til hliðar sem félagsmálaráðherra í „Viðeyjarstjórninni“ svokölluðu. Þjóðvaki var stofnaður á fjölmennum fundi í nóvember 1994, talið var upp úr kjörkössum reyndist fylgi flokksins vera rúmlega sjö prósent og fjórir menn kjörnir.

Alþýðuflokkurinn missti þrjá þingmenn og hélt ekki áfram stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þjóðvaki lifði ekki mjög lengi; þingmenn hans og Alþýðuflokksins stofnuðu þingflokk jafnaðarmanna árið 1996. 

Sjálfstæðismaðurinn Sverrir Hermannsson stofnaði Frjálslynda flokkinn 1998 og fékk til liðs við sig fólk víða að, ekki síst úr Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn fékk menn kjörna í þrennum kosningum 1999 til 2007. 

Svo er að sjá að með stofnun Samfylkingar, samrunaflokks Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins, Kvennalistans og Þjóðvaka og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs undir aldamót hafi að minnsta kosti myndast tímabundinn stöðugleiki á vinstri armi stjórnmálanna.

Eftir aldamótin

Þær nýju hreyfingar buðu fyrst fram í kosningunum í maí 1999 og fengu samtals 23 þingmenn kjörna. Í þeim kosningum stóð kjósendum einnig til boða að velja Húmanistaflokkinn og Anarkista sem fengu samtals undir eitt prósent greiddra atkvæða. 

Nokkur stöðuleiki ríkti í kosningum 2003 og 2007 þar sem nýju vinstri hreyfingarnar ásamt Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki voru þungamiðja íslenskra stjórnmála. Málflutningur Nýs afls vakti athygli en það dugði ekki til að það fengi menn kjörna á þing.

Aflið rann saman við Frjálslynda flokkinn árið 2006 en þeir fengu sex menn kjörna í kosningunum 2003 og fjóra 2007. Í þeim kosningum fékk Íslandshreyfing Ómars Ragnarssonar 3,3% atkvæða en flokkurinn lagði megináherslu á umhverfismál. 

Miklar breytingar eftir efnahagshrunið

Eftir efnahagshrunið haustið tók þeim framboðum sem komu fulltrúum á þing að fjölga. Efnt var til kosninga í lok apríl 2009 eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðiflokks og Samfylkingar lagði upp laupana og starfsstjórn þeirra síðarnefndu ásamt Vinstri grænum starfaði um hríð.

Frjálslyndir þurrkuðust út en Borgarahreyfingin, sem segja má að sé skilgetið afkvæmi Búsáhaldabyltingarinnar, kom fjórum mönnum að. Alls voru 27 af 63 þingmönnum nýliðar að þeim kosningum loknum. 

Metfjöldi framboða, eða 15, var í boði í Alþingiskosningum 2013 en sex náðu mönnum að, þeirra á meðal Björt framtíð og Píratar. Björt framtíð fékk sex menn kjörna þá og fjóra í kosningum 2016.

Í kjölfar þeirra kosninga myndaði flokkurinn ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn en sleit samstarfinu vegna mála sem tengdust uppreist æru dæms barnaníðings haustið 2017.

Örlög flokksins voru að fá 1,2% atkvæða í kosningunum í kjölfarið. Hann hefur ekki boðið fram til Alþingis síðan. Píratar fengu þrjá þingmenn 2013, 10 árið 2016 en sex fyrir fjórum árum. Þingmönnum þeirra fjölgaði um einn á kjörtímabilinu eftir að Andrés Ingi Jónsson gekk til liðs við þá.

Viðreisn var stofnuð í maí 2016 og bauð fyrst fram í kosningum um haustið og fékk sjö menn kjörna en fjóra 2017. Í þeim kosningum varð niðurstaðan sú að átta flokkar skipta með sér þingsætunum 63.

Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var stofnaður 2017 eftir að Sigmundur yfirgaf Framsóknarflokkinn. Í kosningunum 2017 fékk flokkurinn sjö þingmenn og skákaði metfylgi Borgaraflokksins frá 1987 svo munaði nokkrum brotum úr prósenti. 

Auk gengu tveir brottreknir þingmenn úr Flokki fólksins til liðs við Miðflokkinn í febrúar 2019.

Flokkur fólksins var stofnaður 2016 en fékk ekki brautargengi í kosningunum það ár. Árið eftir náði flokkurinn fjórum mönnum á þing en tveir þeirra yfirgáfu hann eins og áður sagði. 

Skoðanakannanir fyrir kosningarnar nú benda til að þingflokkar kunni að verða allt að níu, sem er það flesta í lýðveldissögunni.