Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kosið um sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Íbúar fimm sveitarfélaga á Suðurlandi kjósa ekki aðeins til Alþingis í dag því samhliða þeim kosningum er kosið um sameiningu sveitarfélaganna. Úrslit þeirra kosninga gætu legið fyrir um miðnættið.

Sveitarfélögin eru Ásahreppur, Rangárþing ytra og eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Meirihluti kjósenda í hverju sveitarfélagi þarf að samþykkja sameininguna svo að af henni verði. 

Verði sameiningin að veruleika verður til landstærsta sveitarfélag landsins, tæpir fimmtán þúsund og sjö hundruð ferkílómetrar sem eru sextán prósent af landinu öllu. Sveitarfélagið yrði níunda fjölmennasta sveitarfélag landsins. Anton Kári Halldórsson er formaður samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga á Suðurlandi.

„Þetta leggst gríðarlega vel í mig. Ég er virkilega ánægður með hvernig til tókst í þessari vinnu og kynningunni og ég finn fyrir áhuga íbúa til að taka afstöðu þannig að ég á von á góðri kjörstjórn og þetta leggst mjög vel í mig.“ segir Anton Kári.

Verði sameining samþykkt í kosningunni tekur til starfa undirbúningsnefnd og svo yrði kosið til sveitarstjórnar í sveitarstjórnarkosningum sem fara fram í lok maí á næsta ári. Úrslit úr sameiningarkosningunum gætu legið fyrir tiltölulega snemma í kvöld.

„Það virkar þannig í þessum sameiningarkosningum að það má ekki byrja að telja fyrr en eftir kl 22 þegar öllum kjörstöðum hefur verið lokað. Þá eru atkvæðin talin á hverjum stað. ÞEtta er ekki flókin talning þannig séð, þetta er annaðhvort já eða nei spurning þannig að við eigum von á því að úrslit liggi fyrir fyrir miðnætti.“ segir Anton Kári.