Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvar átt þú að kjósa?

25.09.2021 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjörstaðir út um allt land verða opnaðir klukkan níu og stendur víðast hvar til klukkan tíu í kvöld.

Dómsmálaráðuneytið birti í gær ýmsar upplýsingar um kosningarnar, eins og til að mynda hvar hver og einn á að kjósa og í hvaða kjördeild. Eins má sjá hvernig landinu er skipt upp í kjördæmi og hvernig skiptingu á milli þeirra er háttað. 

Til að mynda voru gerðar breytingar á mörkum Reykjavíkurkjördæmanna tveggja fyrir þessar kosningar. Íbúar í Grafarholti gætu hafa skipt um kjördæmi frá seinustu kosningum. Áhrifin eru þau að kjósendur í Grafarholti sem búsettir eru fyrir norðan Kristnibraut en vestan Jónsgeisla kjósa nú í Reykjavíkurkjördæmi suður, en voru áður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Kjörstaður þeirra breytist ekki og er sem fyrr í Ingunnarskóla.

Kjörstöðum í Reykjavík var fjölgað um fimm fyrir þessar kosningar og er í heildina kosið á 23 stöðum í borginni. 

Kjósendur sem eru í sóttkví eða einangrun vegna Covid-19 mega ekki greiða atkvæði á almennum kjörstöðum eða utankjörfundarstöðum. Þeim er hins vegar heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar á sérstökum kjörstöðum með aðstoð kjörstjóra. Atkvæðagreiðsla á sérstökum kjörstöðum hófst 20. september en opnunar- og lokunartími hvers kjörstaðar er mismunandi eftir umdæmum sýslumanna.

Á vefslóðinni island.is/covidkosning2021 er að finna nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og þar er einnig unnt að sækja um kosningu á dvalarstað.

Um leið og kjörstöðum verður lokað hefst talning atkvæða og má búast við fyrstu tölum fljótlega eftir það. Metþátttaka hefur verið í utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem seinkar líklega talningu atkvæða. Þau atkvæði eru talin seinast og því ekki útséð hvenær seinasta atkvæðið verður talið.