Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verkefnum netafbrotadeildar hefur fjölgað mikið

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Verkefnum netafbrotadeildar lögreglunnar hefur fjölgað mikið að undanförnu og efla þyrfti deildina. Þetta segir lögreglufulltrúi í netafbrotadeild lögreglu. Hann segir að mikil að vitundarvakning hafi orðið í tölvuöryggismálum hér á landi.

Rannsókn á gagna-gíslatökunni hjá Geislatækni í Garðabæ, sem varð fyrir árás rússneskra tölvuþrjóta í síðustu viku, er í fullum gangi og fyrirspurnir hafa verið sendar til annarra landa um hvort sambærileg brot hafi verið framin þar. Daði Gunnarsson lögreglufulltrúi í netafbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að það eina sem hafi fengist staðfest sé tegund árásarinnar.

Hann segir að þetta glæpaumhverfi sé tiltölulega nýtt fyrir íslensku lögreglunni og krefjist talsverðar sérþekkingar.

„Þetta er mjög flókið, þetta krefst töluverðrar alþjóðlegrar samvinnu. Eins og staðan er núna eru nokkrir sem vinna að rannsóknum á tölvubrotum og netbrotum; við erum mjög hæfir en ég myndi telja að við þyrftum fleiri,“ segir Daði.

Hann segir að allar líkur séu á að þessi deild innan lögreglunnar verði stærri. „Miðað við reynsluna frá öðrum löndum tel ég að það sé pottþétt mál.“

Að sögn Daða hefur talsverð vitundarvakning orðið í netöryggismálum hér á landi að undanförnu. „Fyrirtækin eru flest komin með einhverja netöryggissérfræðinga til þess að sinna þessu og við erum með fyrirtæki sem sérhæfa sig í þessu. Þannig að ég held að þetta sé allt á uppleið.“