Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tilkynningum um aukaverkanir fækkar með haustinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjöldi tilkynninga um aukaverkanir lyfja hefur verið nokkuð stöðugur milli mánaða frá því í maí, eða frá 560-600. Gögn lyfjastofnunar sýna þó að þeim fer lítillega fækkandi með haustinu og bárust stofnuninni 547 tilkynningar tengdar bóluefnum gegn COVID-19 í ágúst.

Flestar tilkynningar vegna Comirnaty frá BioNTech/Pfizer

Tilkynningar til stofnunarinnar í ágúst voru í heildina 562, þar af 547 vegna bóluefna gegn COVID-19. Þá bárust 258 tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir eftir bólusetningu með bóluefninu Comirnaty, sem betur er þekkt undir nafni framleiðandans BioNTech Pfizer.

126 tilkynningar bárust vegna gruns um aukaverkanir eftir bólusetningu Spikevax frá Moderna og 113 vegna bóluefnis Janssen. Fæstar tilkynningar, eða 50, bárust vegna bóluefnis AstraZeneca. Í tveimur tilkynningum vantar upplýsingar um heiti lyfs/bóluefnis.

Hér má sjá samantekt Lyfjastofnunar frá upphafi árs um fjölda tilkynninga vegna gruns um aukaverkun, flokkað eftir alvarleika:

Tilkynningar vegna gruns um um alvarlegar aukaverkanir

Tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir sem grunur er að megi rekja til lyfja, voru 39 sem tengdust bóluefnum gegn COVID-19. Þar af voru 14 vegna bóluefna frá framleiðandanum BioNTech/Pfizer, 10 vegna Moderna og 5 vegna Janssen.

Skilgreining Lyfjastofnunar á alvarlegum aukaverkunum er svohljóðandi: „Alvarleg aukaverkun er aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða, lífshættulegs ástands, sjúkrahúsvistar eða lengingar á sjúkrahúsvist, veldur fötlun eða fæðingargalla hjá mönnum og jafnframt aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða eða veldur ólæknandi eða langvarandi sjúkdómseinkennum hjá dýrum“.

Notendur eða aðstandendur tilkynna oftast

Flestar tilkynningar bárust frá notendum sjálfum eða aðstandendum þeirra, eða 502. Aðeins 20 tilkynningar komu frá læknum, 5 frá lyfjafræðingum, 29 frá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum og í 6 tilfellum var ekki skráð hver tilkynnti.