Tekur tíma að gróa um heilt

24.09.2021 - 03:33
epa09483239 Antony Blinken, United States Secretary of State, speaks during a meeting of the United Nations Security Council, held during the 76th Session of the UN General Assembly in New York City, New York, USA, 23 September 2021.  EPA-EFE/JOHN MINCHILLO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að loknum fundi með franska starfsbróður sínum Jean-Yves Le Drian að það eigi eftir að taka sinn tíma að gróa um heilt á milli ríkjanna. Hann ítrekaði það sem fram kom í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu á miðvikudagskvöld að það hefði verið betra að ræða við Frakka áður en Ástralir slitu samningum við þá. 

Frakkar eru verulega ósáttir við Ástralíu, Bandaríkin og Bretland. Ríkin þrjú undirrituðu samning um víðtækt varnarsamstarf, þar á meðal um að Ástralir kaupi kjarnorkuknúna kafbáta af Bandaríkjunum. Ástralir riftu því samningum við Frakka um kaup á kafbátum.

Blinken sagði blaðamönnum í gærkvöld að bæði ríki þurfi að leggja hart af sér um talsvert skeið áður en samskiptin við Frakka verða líkt og áður. Það verði ekki aðeins sýnt í orðum, heldur gjörðum. Hann kvaðst staðráðinn í að vinna náið með Le Drian að því markmiði.