Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smá skref reynast stór fyrir sögu Norður-Ameríku

This undated photo made available by the National Park Service in September 2021 shows fossilized human fossilized footprints at the White Sands National Park in New Mexico. According to a report published in the journal Science on Thursday, Sept. 23, 2021, the impressions indicate that early humans were walking across North America around 23,000 years ago, much earlier than scientists previously thought. (NPS via AP)
 Mynd: AP
Steingerð fótspor sem talin eru frá um 23 þúsund árum eru elstu merki sem til eru um ferðir manna í Norður-Ameríku. Fótsporin fundust í eyðimörkinni í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum, og benda til þess að menn hafi gengið um álfuna löngu fyrir lok síðustu ísaldar.

Fótsporin voru mörkuð í drullu við bakka löngu uppþornaðs stöðuvatns, þar sem nú er eyðimörk. Botnfall fyllti upp í sporin og steingerðist, fornleifafræðingum til mikillar gleði þúsundum árum síðar. Sporin urðu til þess að endurskrifa verður söguna um fyrstu ferðir manna í Norður-Ameríku.

Áður var talið að þeir hefðu komið til Norður-Ameríku yfir landbrú frá Síberíu, þar sem Berings-sundið er nú. Fornleifarannsóknir fyrri tíma bentu til þess að menn hafi fyrst komið sér fyrir í álfunni fyrir um 13.500 árum. Þar til fyrir um tveimur áratugum var þetta sú kenning sem flestir fornleifafræðingar sættust á. Síðan þá hafa fundist ýmsar minjar sem benda til fyrri ferða manna allt frá Alaska og suður eftir álfunni. 

Að sögn fornleifafræðinganna sem greindu fótsporin voru flest sporanna af fótum barna og ungmenna. Færri spor fullorðinna voru sjáanleg, skrifa þeir í grein í nýjasta hefti vísindaritsins Science. Eins fundust spor loðfíla, forsögulegra úlfa og risa-letidýra, hefur AFP fréttastofan eftir greininni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV