Segir upp í mótmælaskyni við stefnu Bidens

24.09.2021 - 05:33
epa09483122 Migrants set up a camp in a park after threats of deportation and a lack of supplies in the US, in Ciudad Acuna, Mexico, 22 September 2021. An estimated 14,000 people have crossed the Rio Grande river into the United States from Mexico. The Biden administration has started to fly the migrants back to Haiti, according to federal officials.  EPA-EFE/ALLISON DINNER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Daniel Foote, sérstakur erindreki Bandaríkjanna í Haítí sagði í gær af sér í mótmælaskyni við stefnu Bandaríkjastjórnar. Foote sagði í uppsagnarbréfi sínu að ákvörðun stjórnvalda að snúa flóttamönnum frá Haítí við á landamærunum að Mexíkó væri ómannúðleg. Fólkið hafi flúið jarðskjálfta og pólitískan óstöðugleika í heimalandinu.

Bandaríkin hófu um síðustu helgi brottflutninga flóttafólks frá Haítí úr landamærabæ í Texas. Um 13 þúsund flóttamenn hafa komið sér þar fyrir og leitað skjóls undir brú. Þar hafa þeir dvalið í bráðabirgða-tjaldbúðum, í bæ þar sem hitinn fer allt upp í 37 gráður að sögn fréttastofu BBC. Bæjaryfirvöld hafa átt í vandræðum með að útvega þeim mat og tryggja hreinlæti. Yfir 1.400 hefur verið flogið aftur til Haítí síðan á sunnudag. 

Foote sagði í uppsagnarbréfi sínu að Haítí væri í raun fallið ríki sem geti ekki veitt þeim þúsundum sem sendar verða til baka nægan mat, húsaskjól eða pening. Hann sagði Haítí þurfa á tafarlausri aðstoð að halda og gagnrýndi Bandaríkin og fleiri ríki fyrir að skipta sér af stjórnmálum landsins. Það eina sem ríkið þurfi sé tækifæri til þess að finna sér rétta braut, án alþjóðlegra afskipta og hrókeringa frambjóðenda sem eru öðrum ríkjum þóknanlegir. 

Gagnrýndur fyrir stefnuleysi

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur verið gagnrýndur fyrir stefnu sína, eða stefnuleysi, í málefnum innflytjenda. Í kosningabaráttunni lofaði hann því að snúa frá stefnu forvera síns Donalds Trumps, sem Biden sagði allt of stranga. Hann lagði það á herðar Kamala Harris, varaforseta síns, að stýra innflytjendastefnunni, en gagnrýnendur þeirra segja enga skýra stefnu virðast klára.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV