Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reiðubúin til viðræðna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum

24.09.2021 - 11:34
epa07407806 Kim Yo-jong, sister of North Korea's leader Kim Jong-un, attends wreath laying ceremony at the Ho Chi Minh Mausoleum in Hanoi, Vietnam, 02 March 2019.  EPA-EFE/JORGE SILVA / POOL
Kim Yo-jong. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Systir leiðtoga Norður-Kóreu segir stjórnvöld í landinu reiðubúin að semja um formleg lok Kóreustríðsins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tilkynningin þykir nokkuð óvænt því að fyrr í vikunni lýstu stjórnvöld því yfir að viðræður væru ótímabærar.

Kóreustríðið hófst 1950, fyrir rúmlega sjötíu árum. Átökum lauk þremur árum síðar með vopnahléi milli Norður- og Suður Kóreu en ekki með friðarsamningi. Síðan hefur oftar en ekki andað köldu milli ríkjanna. Moon Jae-in tók við forsetaembætti í Suður-Kóreu árið 2017 og hefur lagt á það mikla áherslu í valdatíð sinni að bæta samskiptin við nágrannana í norðri. Hann kallaði eftir því fyrr í vikunni að ríkin tvö og bandamenn þeirra, lýstu formlega yfir lokum stríðsins. Fyrstu viðbrögð stjórnvalda í Norður-Kóreu voru að slíkar viðræður væru ekki tímabærar. 

Í dag kom svo óvænt tilkynning frá Kim Yo-jong, systur Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, þar sem hún sagði hugmyndina aðdáunarverða. Tilkynningin var lesin upp í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu. Þar segir að stjórnvöld séu aðeins reiðubúin til viðræðna ef Suður-Kórea lætur af því sem þau kalla óvinveitta stefnu gegn þeim. Í henni felist meðal annars órökréttir fordómar, réttlæting á eigin gjörðum og vanvirðing á rétti Norður-Kóreu til varna. Aðeins þegar þeim skilyrðum yrði mætt yrði hægt að setjast niður augliti til auglitis og lýsa yfir lokum stríðsins. Yo-jong er háttsett innan stjórnarflokksins í Norður-Kóreu. 

Forseti Suður-Kóreu telur að með yfirlýsingu um stríðslok aukist líkur á að Norður-Kóreumenn láti af kjarnorkuvopnavæðingu sinni.