Fræða ferðamennina um lífríki hafsins

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Fræða ferðamennina um lífríki hafsins

24.09.2021 - 12:35

Höfundar

„Við finnum fyrir auknum áhuga hjá ferðamönnum. Margir vilja staldra lengur við og nota tímann til þess að fræðast,“ segir Heimir Harðarson, skipstjóri hjá Norðursiglingu og einn af stofnendum Ocean Missions, sjálfseignarstofnunar sem helgar sig því að rannsaka lífríki hafsins og stuðla að verndun þess.

 

Ocean missions og Norðursigling hafa í sumar boðið upp á reglulegar hvalaskoðunarferðir út á Skjálfandaflóa fyrir ferðamenn þar sem markmiðið er ekki aðeins að skoða hvali heldur einnig verið að fræða fólk um vísindi og verndun hafsins.

Belén García Ovide, sjávarlíffræðingur og leiðsögumaður, segir að ferðamönnunum þyki gaman að fá að taka þátt í því að safna rannsóknargögnum.

„Í þessari ferð er markmiðið að safna vísindalegum gögnum til þess að rannsaka hvort plastmengun sé vandamál hér. Við notum líka þennan vettvang til þess að hvetja fólk til þess að vernda höfin,“ segir Belén.

Landinn fékk að slást með í leiðangur út á Skjálfandaflóa.