Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja að ríkið styðji betur við uppbyggingu vegna eldis

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Sveitarfélög á Vestfjörðum telja að ríkið verði að setja meira fé í uppbyggingu innviða til að styðja við fiskeldi og að auðlindagjöld eigi að renna beint til sveitarfélaga. Þetta kom fram á fundi um fiskeldi sem helstu hagsmunaaðilar atvinnuvegarins á Vestfjörðum sóttu.

Sorglegur stuðningur miðað við milljarðafjárfestingar vegna ál- og kísilvera

Vestfjarðastofa telur að ríkið hafi ekki staðið sig í uppbygginu innviða til þess að styðja við atvinnuveginn. Vegagerð sem átti að efna til burtséð frá atvinnuuppbyggingu geti ekki talist með og því sé stækkun hafnarinnar á Bíldudal fyrir um 260 milljónir króna í raun eina beina framlag ríkisins. Það sé sorglegt í samanburði við milljarðafjárfestingar vegna ál- og kísilvera í öðrum landshlutum.

Telur þú þetta áfellisdóm á hvernig ríkið hefur staðið að málunum?

„Já, það er eiginlega ekki hægt að segja annað. Því að við höfum ekki fundið mikinn meðbyr úr þeirri átt,“ segir Guðrún Anna Finnbogadóttir verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu. 

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, tekur undir þetta. 

„Við teljum alla vega að ríkið geti gert mun betur þegar kemur að þessu, því að sveitarfélögin hér og fyrirtækin hafa borið þungann af þeirri innviðauppbyggingu sem hefur þegar átt sér stað.“ 

Óeðlilegt að sveitarfélög keppi um fjármagn til uppbyggingar

Fiskeldi hefur leikið stórt hlutverk í því að snúa við áralangri neikvæðri byggðaþróun á Vestfjörðum og í dag starfa tæplega 170 manns hjá tveimur stærstu fyrirtækjunum, Arctic Fish og Arnarlaxi. 

Guðrún segir að fyrirkomulag gjaldtöku af fiskeldi sé óeðlilegt; féð renni í samkeppnissjóði, þar á meðal fiskeldissjóð, þar sem sveitarfélög keppa um fjárveitingar til þess að standa fyrir uppbyggingu. 

„Við erum svolítið hissa á þessari aðferðarfræði, Af því að í rauninni, þar er svo augljóst hvar vandinn liggur og hann liggur víða. Það þarf mikla uppbyggingu til samræmis við það sem er að gerast, það er að vaxa ný atvinnugrein, gríðarlega stór.“ 

Þau vestfirsku sveitarfélög þar sem eldisstarfsemi er hafa nú undirritað sáttmála um fiskeldi þar sem stefnan er meðal annars að fá þessu fyrirkomulagi breytt og tryggja að gjöldin renni beint til sveitarfélaga.