Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verðlaunaféð tvöfaldað á EM kvenna í fótbolta

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Verðlaunaféð tvöfaldað á EM kvenna í fótbolta

23.09.2021 - 10:52
Evrópska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að tvöfalda verðlaunaféð sem fer til liðanna sem taka þátt í EM kvenna á næsta ári. Mótið verður haldið á Englandi og Ísland er í hópi sextán þátttökuþjóða.

Á EM í Hollandi 2017 varð verðlaunaféð átta milljónir evra en verður nú sextán milljónir. Þá fá félagslið í fyrsta skipta greitt fyrir að leyfa leikmönnum að taka þátt í mótinu. 4,5 milljónir evra eru í þeim potti sem skiptast á 23 leikmenn í hverjum landsliðshópi. 

Er þetta gert í takti við nýja stefnu UEFA um að setja meiri peninga í kvennaboltann. 

Ísland fékk 300 þúsund evrur í sinn hlut á síðasta EM þegar liðið datt úr leik strax í riðlakeppninni. Það eru tæplega 46 milljónir á gengi dagsins en það er líka kostnaðarsamt að taka þátt í mótum sem þessum. Liðin sem tóku þátt í EM karla í sumar fengu að lágmarki 1,4 milljarða fyrir þátttökuna. 

Evrópumótið verður sýnt á RÚV.