Veldisvöxtur í netárásum

Mynd með færslu
 Mynd: DR
Veldisvöxtur er í netárásum á fyrirtæki að sögn aðstoðarforstjóra netöryggisfyrirtækis. Nauðsynlegt sé að vera á varðbergi gagnvart tölvupóstum sem fólk kannist ekki við.

Unnið hefur verið að því hörðum höndum í dag að endurræsa öll tölvukerfi Geislatækni í Garðabæ sem varð fyrir árás tölvuþrjóta, að talið er rússneskra, fyrir tæpri viku. Grétar Jónsson framkvæmdastjóri Geislatækni segir þetta seinlegt og flókið en fyrirtækið nýtur aðstoðar sérfræðinga í Svíþjóð og Þýskalandi, auk innlendra. Grétar segir að unnið verði í kvöld og nótt við að koma fyrirtækinu aftur í gang. Tölvupóstur beið starfsmanna fyrirtækisins þegar þeir komu til vinnu á mánudag þar sem fram kom krafan um lausnargjald í rafmynt sem nemur 26 milljónum og að nú á miðnætti hækki upphæðin í 52 milljónir hafi greiðsla ekki borist. Árásir sem þessar færast í aukana.

„Já, við erum að sjá verulega aukningu, í rauninni bara veldisvöxt í svona árásum undanfarin misseri,“ segir Anton Már Egilsson aðstoðarforstjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis.

Anton Már segir Ísland í engu frábrugðið öðrum löndum heims.

„Eðli þessara árása er þannig að þær eru að mörgu leyti sjálfvirkar. Fyrir glæpamönnunum eru þetta bara viðskipti þannig að það er allur heimurinn undir. Það sem gerist er að, sama hvaða aðferð er beitt í hvert skipti, þá er sent á gríðarlegan fjölda aðila hvort sem það eru tölvupóstar eða gerðar tilraunir til innbrots um allan heim og einhverjir smella á mögulega rangan hlekk eða einhver kerfi eru viðkvæm og ákveðið hlutfall smellir á þetta og Ísland er ekkert undanskilið neinum öðrum í menginu.“

Tölvupóstarnir líta í mörgum tilvikum eðlilega út og gefa ekki tilefni til efasemda. Anton Már segir að í mörgum tilvikum treysti starfsmenn á póstvarnir og síur til að losna við pósta af þessu tagi.

En fræðsla til starfsfólks er lykilþáttur líka í þessu, að greina frá hverjum póstarnir koma, á ég von á einhverjum svona pósti, er eitthvað óeðlilegt við það sem ég er að fá. Ef það er svoleiðis þá sleppi ég því hreinlega að smella á linkinn.“