Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Varnarmálaráðherrann trúði ekki að Holmes væri loddari

23.09.2021 - 18:41
epa07000618 US Secretary of Defense Jim Mattis speaks at a joint press statement after a meeting with Indian Foreign Minister Sushma Swaraj (unseen) and Indian Defense Minister Nirmala Sitharaman (unseen) in New Delhi, India, 06 September 2018. US Defense
 Mynd: EPA-EFE - EPA
James Mattis, fyrrverandi yfirhershöfðingi í bandaríska flotanum og varnarmálaráðherra, segist hafa orðið alveg heillaður af blóðskimunartækni sem Elizabeth Holmes kynnti fyrir honum. Mattis bar vitni í réttarhöldum sem bandarísk yfirvöld hafa höfðað gegn Holmes. Hún var með pálmann í höndunum fyrir 7 árum og var yngsta konan til að verða milljarðamæringur af eigin rammleik. Seinna kom í ljós að hin byltingarkennda blóðskimunartækni virkaði ekki og hefur hún verið ákærð fyrir fjársvik.

Holmes hélt því fram þegar hún stofnaði fyrirtækið Theranos að með fáeinum blóðdropum  mætti greina hina ýmsu sjúkdóma, til að mynda sykursýki og krabbamein. Ekki þyrfti að draga blóð úr fólki með nálum heldur aðeins ná nokkrum dropum með lítilli stungu. 

Kissinger og Mattis fjárfestu

Holmes náði að sannfæra valdamikla menn á borð við Mattis og Henry Kissinger til að sitja í stjórn Theranos. Hún stofnaði fyrirtækið 2015 og aðeins ári seinna var Holmes afhjúpuð sem loddari. Tæknin virkaði alls ekki og 2018 var fyrirtækið fallið. 

Holmes er 37 ára. Hún á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi ef hún verður sakfelld fyrir öll tólf ákæruatriðin. Henni er gert að sök hafa bæði blekkt sjúklinga og fjárfesta, segir í frétt BBC.

Mattis var svo sannfærður um ágæti Holmes að hann taldi fullvíst, þegar hann heyrði fyrst að hún sökuð um að vera svikahrappur, að það væru upplognar sakir. Mattis lagði 85 þúsund dollara í Theranos, fyrirtæki Holmes, sem jafngildi 11 milljónum króna. 

Náðu inn fjárfestum með 90 milljarða

Fyrirtækinu hefur verið gert að sök hafa notað tæki frá öðrum framleiðendum til þess að greina blóðdropana. Saksóknari í Bandaríkjunum segir að Holmes og fyrrverandi kærasti hennar, Ramesh Balwani, hafi snúið sér að svikum árið 2009 þegar stór lyfjafyrirtæki neituðu að styðja Theranos og skötuhjúin urðu auralaus. Þeim er gert að sök að hafa logið til um blóðskimunina og velgengni fyrirtækisins til þess að ná sér í fjárfestingu upp á 700 milljónir dollara sem jafngildir um 90 milljörðum króna.

Í hlaðvarpsþáttunum The Dropout er sögu Elizabeth Holmes gerð góð skil.