Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tapað milljónum á Brexit

Hildur Þóra Magnúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Pure Natura á Sauðárkróki.
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Þótt viðskipti við Bretland gangi ágætlega eftir Brexit eru enn hnökrar í viðskiptum milli Íslands og Bretlands. Fyrirtæki í Skagafirði sem framleiðir fæðubótarefni úr íslenskum landbúnaðarvörum hefur tapað milljónum króna vegna hindrana.

Brexit hefur valdið margvíslegum vandræðum í Bretlandi. Erfiðlega gengur að koma vörum inn í landið og víða ber á vöruskorti, jafnvel á innlendum vörum því ekki fæst vinnuafl, til að mynda í landbúnaði. Íslensk fyrirtæki finna einnig fyrir áhrifum Brexit. „Heilt yfir ganga viðskiptin við Bretland ágætlega og fríverslunarsamningurinn hefur tryggt mjög mikilvæga hagsmuni en eins og ég segi, það eru hnökrar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Ólafur nefnir sem dæmi upprunareglur, þannig að ekki er hægt að flytja inn vörur sem framleiddar eru í EES landi og fluttar hafa verið til Bretalands án þess að þær fái á sig tolla. Innflutningsfyrirtæki finna líka fyrir því að Bretland er nú orðið eins og hvert annað þriðja ríki. „Það eru dæmi um að vörur sem eru framleiddar í Bretlandi úr íslenskum hráefnum eigi í vandræðum að komast inn í landið.“

Endursendu 800 kíló til Bretlands fyrir stimpil

Pure Natura í Skagafirði er eitt þeirra fyrirtækja sem lent hefur í vandræðum. Fyrirtækið framleiðir fæðubótarefni úr íslensku kjöti og jurtum. Hráefnið, sem er úr íslensku lambi, er sent út til Bretlands í frostþurrkun og duftið sett í hylki áður en það er flutt aftur til Íslands. Þetta hefur valdið fyrirtækinu miklum vandræðum. „Og þar af leiðandi er íslenska lambakjötið orðið breskt þegar það snýr aftur heim. Við höfum þurft að endursenda 800 kíló af fullunnum hylkjum til Bretlands til þess að láta breskan dýralækni votta hráefnið,“ segir Hildur Þóra Magnúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Pure Natura.

Farin að horfa til Danmerkur

Þetta hefur valdið fyrirtækinu umtalsverðum búsifjum. „Við vorum vörulaus og það var mikið fjárhagslegt tjón. Við áttum ekki vörur í heilan mánuð vegna þessara tafa sem urðu eftir Brexit. Þetta eru einhverjar milljónir sem við töpuðum á þessu,“ segir Hildur Þóra og bætir við að húns sé farin að horfa til annarra landa. „Þetta hefur gert það að verkum að við erum farin að tala við fyrirtæki í Danmörku til dæmis og íhuga flutning á okkar framleiðslu frá Bretlandi.“

Stærsta viðskiptahindrunin er þó enn handan við hornið því heilbrigðisvottorð munu þurfa að fylgja öllum útfluttum dýraafurðum til Bretlands. Það átti að taka gildi 1. október en Bretar frestuðu gildistöku til 1. júlí á næsta ári, meðal annars vegna þeirrar stöðu sem uppi er í Bretlandi núna.