Stærsti samningurinn um kaup á heilbrigðisþjónustu

23.09.2021 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Klínísk starfsemi Landspítala verður frá 1. janúar næstkomandi fjármögnuð í samræmi við umfang veittrar þjónustu. Samningur þessa efnis var undirritaður af heilbrigðisráðherra í dag og er það stærsti samningur um kaup á heilbrigðisþjónustu sem gerður hefur verið hér á landi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans og María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands undirrituðu samning um innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar Landspítala í dag.

Frá þessu er greint á vef ráðuneytisins

Þjónustutengd fjármögnun byggist á því að þjónusta eða framleiðsla spítalans er greind niður í flokka samkvæmt sjúkdómaflokkunarkerfi. Umfangið er mælt í svokölluðum DRG einingum. Greiðslur fyrir aðgerð eða meðferð ráðast af fjölda DRG eininga þar sem einingaverðið er fast og fyrir liggur hvað margar DRG einingar hver aðgerð eða meðferð felur í sér að meðaltali.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í samtali við fréttastofu að þetta fyrirkomulag þýði að fé fylgi verkefnum hjá spítalanum.

„Þegar verkefnum fjölgar þá aukast greiðslur til spítalans, eftir skilgreindum hætti og innan ramma, á sama tíma og tryggt er samt að aðrir þættir sem ekki er hægt að mæla út frá beinum teljara eins og til dæmis menntun og vísindi séu áfram fjármögnuð með föstum fjárlögum.“

Páll sagði við undirritun samningsins að framundan væri mikil breyting á hluta rekstrar spítalans. Þarna sé kominn hvati til að framleiða meira og veita betri þjónustu.

„Síðan eru ákveðin gæðaviðmið þarna á bakvið líka sem að í rauninni sem gæðatengja þjónustuna og veita okkur þar með ákveðið aðhald, sem ég held að sé af hinu góða líka.“