Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skólahald hefst á Reyðarfirði á ný eftir hópsmit

23.09.2021 - 07:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Reyðarfjörður
Skólahald hefst á ný á Reyðarfirði í dag. Fimm smit greindust úr sýnatöku sem fram fór á Reyðarfirði í fyrradag, en þá voru tekin rúmlega tvö hundruð sýni.

Hópsmit kom upp í firðinum í síðustu viku og hefur skólahald grunnskólans á Reyðarfirði og leikskólans Lyngholts legið niðri í um viku. Skólahald hefst hins vegar með nokkuð eðlilegum hætti að ný í dag, þar sem lang flestir hafa lokið sinni sóttkví og smitgát og enginn greinst utan sóttkvíar.

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn á Austurlandi segir að þó þurfi að hafa í huga að enn eru nokkuð margir starfsmenn leikskólans frá vegna sóttkvíar og smita og því gæti þurft að loka einhverjum deildum skólans vegna manneklu.

Bjartsýni ríkir hins vegar að tekist hafi að ná utan um þau smit sem greindust í síðustu viku.