Sérútbúin regnhlíf tryggir leynd

23.09.2021 - 21:45
Bílakjörstaður var opnaður á Reyðarfirði í dag. Vegna hópsmits í bænum verður nokkur fjöldi fólks í einangrun eða sóttkví á kjördag. Sérútbúin regnhlíf frá dómsmálaráðuneytinu tryggir leynd undir berum himni.

Við ökum upp að Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Kjörplanið hefur verið girt af og þar bíður sýslumaður eftir kjósendum.

„Það varð hér hópsmit á Reyðarfirði og við þurftum skyndilega að setja upp kjörstað. Svokallaðan bílakjörstað fyrir covid-smitaða. Það er þannig að þeir sem verða í sóttkví og eða einangrun á kjördag, þeir mega kjósa með þessum hætti. Þá aka menn hérna upp að anddyrinu hjá okkur og við förum út á fáum upp gefna kennitölu. Löbbum með hana inn og prentum út fylgibréf. Komum síðan með kjörgögn út. Fáum uppgefið í gegnum bílrúðu hjá kjósanda hvernig hann vill kjósa. Hvaða flokk; gefur okkur upp bókstaf sem við þá sýnum honum í svona tjaldi sem við erum með til að hylja fyrir öðrum hvernig hann mun kjósa og hann sér þá að við höfum gengið réttilega frá hans atkvæði. Það fer síðan í umslag og ofan í sendiumslag og fer svo í kjörkassa,“ segir Lárus Bjarnason, sýslumaður á Austurlandi.

Við kosninguna er notuð forláta regnhlíf sem dómsmálaráðuneytið úthlutaði til þess arna. „Þetta er nú bara ósköp venjuleg regnhlíf og tjald sem hefur verið útbúið. Hnútur hérna ofan á sem þarf að setja regnhlífina í gegnum. Síðan breiðir maður bara þetta tjald yfir. Þetta er hentugt ef maður labbar að bíl og er sjálfur inni í regnhlífinni að þá kannski sést ekkert ef maður er með þetta með þessum hætti hér. Þá leggurðu þetta bara upp að bílrúðunni og þá sést ekkert allavega aftan frá hvernig þú kýst. Og hæpið að nokkur sjái hinum megin frá hvað er í gangi þannig að við höfum látið þetta duga sem leyndina sem þarf að vera samkvæmt kosningalögum,“ segir Lárus.

Bílakjörstaðurinn á Reyðarfirði var bara opinn í dag en fram á kjördag verður hægt að kjósa í bíl í tollhúsinu á Seyðisfirði.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV