Minnislaus kona á kletti reyndist þekktur hönnuður

23.09.2021 - 06:44
This photo provided by the Croatian Mountain Rescue Service, shows the rescue operation of an unidentified woman who was found on the Adriatic island of Krk on Sept. 12, 2021. Croatian police said Tuesday, Sept. 21, 2021 they are still working to establish the identity of a woman found over a week ago at a northern Adriatic Sea island with no recollection of who she is or where she came from. Police told the Associated Press they are searching the terrain and conducting numerous interviews with residents and tourists or anyone who has information about the woman discovered on the island of Krk on Sept. 12. (HGSS via AP)
 Mynd: AP
Yfirvöld á Króatíu telja sig vera búin að bera kennsl á konu sem fannst á eyjunni Krk 12. september síðastliðinn. Konan fannst á lífi, en hún gat ekki sagt þeim sem fundu hana hvernig hún komst þangað sem hún var, hvaðan hún kom eða hver hún væri. Króatíska lögreglan segir konuna vera hina 57 ára gömlu Danielu Adamcovu frá Slóvakíu.

Adamcova er fyrrverandi hönnuður. Hún bjó lengi vel í Bandaríkjunum og bjó til skartgripi fyrir frægt fólk á borð við Diönu Ross. Hönnun hennar mátti einnig sjá í sjónvarpsþáttunum Friends, og samkvæmt Guardian seldi hún einnig stjörnum á borð við Brigitte Bardot og Barbra Streisand skartgripi.
Það var ekki hlaupið að því að koma Adamcova til bjargar. Hún sat á úfnum kletti nærri sjónum á afskekktum stað á eyjunni Krk þegar hún fannst.

Erfitt að komast að henni

Trillusjómaður sá hana þar, en var hræddur um að stranda bátnum sínum ef hann reyndi að bjarga henni sjálfur. Hann hafði því samband við lögreglu. Lögregla fékk aðstoð björgunarsveitar á tveimur fjórhjóladrifnum bílum. Þeir urðu þó að stöðva um þremur kílómetrum frá klettinum, og fara fótgangandi til hennar. Að sögn lögreglu talaði hún fullkomna ensku, en var hvorki með skilríki né síma á sér. Hún var ringluð og hafði orðið fyrir miklu vökvatapi. Svo veikburða var hún að hún gat ekki drukkið vatn hjálparlaust, hefur Guardian eftir lögreglu. Eftir að hafa birt myndir af henni og óskað eftir aðstoð almennings báru vinir og kunningjar hennar í Króatíu og Slóvakíu kennsl á hana. Eins þekktu einhverjir í Bandaríkjunum hana af myndunum. 

Yfirvöld sögðu í gær að ástand Adamcovu væri stöðugt. Hún tekur vel við meðferð sem hún hlýtur á sjúkrahúsi í borginni Rijeka á meginlandi Króatíu. Félagsmálayfirvöld taka við máli hennar þegar hún útskrifast af spítalanum.

Adamcova er uppalin í bænum Trencin í Slóvakíu. Þaðan fór hún árið 1984 til að stunda nám í hönnun í Bandaríkjunum. Hún sagði í viðtali við tímarit í heimabænum að hún hafi lært í Santa Monica í Kaliforníu, þar sem hún komst einnig í samband við stjörnur í gegnum kvikmyndaframleiðanda sem hún tók saman við og giftist. Heimildir Guardian herma að þau hafi skilið árið 2000 og Adamcova haldið heim til Slóvakíu. Þar var hún til ársins 2008. Óvíst er hvenær hún fór aftur til Bandaríkjanna, en sögur herma að hún hafi búið í Írlandi frá árinu 2015 til 2018, þar sem hún vann í skýlum fyrir heimilislausa. Svo sneri hún aftur heim til Trencin.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV