Miklu fleiri kosið utan kjörfundar en áður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rétt tæplega 34 þúsund hafa kosið í alþingiskosningunum utan kjörfundar, mun fleiri en á sama tíma fyrir alþingiskosningar árin 2016 og 2017. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu telur það skýrast meðal annars af heimsfaraldri og veðurspá.

Á höfuðborgarsvæðinu hafa rúmlega 24 þúsund kosið utan kjörfundar. Þegar tveir dagar voru til kjördags árið 2017 höfðu tæplega 17.500 kosið og árið 2016 voru það rúmlega 13.700. Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir að þróunin sé svipuð á landsbyggðinni. Hún telur aukningu skýrast, í grófum dráttum, af fjórum þáttum:

„Það sem ég hef haldið og tel að geti skýrt þetta er í fyrsta lagi að við opnuðum strax 23. ágúst tvo utankjörfundaatkvæðagreiðslustaði, annars vegar í Kringlunni og hins vegar í Smáralind. Og við erum með opið frá 10 til 22 alla daga vikunnar. Síðan held ég líka að það geti verið COVID-ástandið, að fólk sé hrætt við að vera í sóttkví eða einangrun á kjördegi, og vilji kjósa þess vegna utan kjörfundar. Þá hafa frambjóðendur verið að hvetja kjósendur til að kjósa strax. Og í fjórða lagi er nú ekki góð veðurspá á kjördag, og það getur líka haft áhrif á að fólk sé að kjósa utan kjörfundar,“ segir Sigríður.