Mikill áhugi á sameiningarkosningu á Suðurlandi

Mynd: RÚV / RÚV
Formaður samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga á Suðurlandi segir að mikill áhugi sé fyrir kosningunni á laugardaginn samhliða Alþingiskosningum. Verði sameining samþykkt yrði nýja sveitarfélagið það stærsta að flatarmáli. 

Íbúar í fimm sveitarfélögum á Suðurlandi Ásahreppi, Mýrdalshreppi, Rangárþingi eystra, Rangárþingi ytra og Skaftárhreppi kjósa ekki aðeins til Alþingis á laugardag heldur verður einnig kosið um sameiningu sveitarfélaganna. Verði það samþykkt yrði sameinað sveitarfélag tæpir fimmtán þúsund og sjö hundruð ferkílómetrar sem eru sextán prósent af landinu öllu. Íbúar yrðu rúmlega fimm þúsund og þrjú hundruð. Sveitarfélagið yrði það stærsta á landinu að flatarmáli og það níunda fjölmennasta.

Íbúar hafa sýnt sameiningarkosningunni áhuga.

„Það hefur gengið vel núna upp á síðkastið. Við erum búin að vera síðustu þrjár, fjórar vikurnar í heljarinnar kynningarátaki og haldið íbúafundi í öllum sveitarfélögum og verið virk á samfélagsmiðlum og öðru,“ segir Anton Kári Halldórsson, formaður samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga á Suðurlandi.

Íbúar eru ekki á einu máli um sameiningu.

„Auðvitað ekki. Það eru alveg skiptar skoðanir sem betur fer og þess vegna erum við að þessu,“ segir Anton Kári. 

Lengsta vegalengdin yrði milli Kirkjubæjarklausturs og Laugalands, 180 kílómetrar. 

„Það er ein af stóru áskorununum en eins og staðan er í dag og eins og tækninni hefur fleygt fram bara á undanförnum tveimur árum, þá erum við mikið að horfa til stafrænna lausna. Við erum einmitt að keyra sérverkefni núna sem heitir stafrænt ráðhús Suðurlands. En svo eru líka kostir við þetta því að með því að það sé svona langt á milli staðanna þá er ekki í boði að skerða þjónustu á tilteknum stöðum. Þannig að þjónustu verður haldið úti á öllum þessum stöðum, sem hún er í dag,“ segir Anton Kári.

Verði sameining samþykkt í kosningunni tekur til starfa undirbúningsnefnd: „Sem vinnur í rauninni að undirbúningi stofnunar þessa sveitarfélags. Þá verður kosið til sveitarstjórnar í þessu sameinaða sveitarfélagi 28. maí á næsta ári,“ segir Anton Kári.