Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leikfélag Reykjavíkur dæmt til að greiða Atla bætur

23.09.2021 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur dæmdi í dag Leikfélag Reykjavíkur til að greiða leikaranum Atla Rafni Sigurðarsyni 1,5 milljónir í miskabætur og 3 milljónir í málskostnað. Atli höfðaði mál á hendur leikfélaginu og Kristínu Eysteinsdóttur, þáverandi leikhússtjóra, eftir að honum var sagt upp í tengslum við fyrstu metoo-hreyfinguna.

Atli hafði betur gegn bæði leikfélaginu og Kristínu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar voru honum dæmdar 5,5 milljónir í bætur. Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við og sýknaði bæði leikfélagið og Kristínu af kröfum leikarans. Eiríkur Jónsson, dómari við dómstólinn, skilaði séráliti og taldi að leikfélaginu bæri að greiða leikaranum bætur.

Atli fékk síðan heimild frá Hæstarétti til að áfrýja máli sínu gegn leikfélaginu en ekki gegn Kristínu. Dómurinn hefur ekki verið birtur en bæði lögmaður leikfélagsins og Atla Rafns hafa staðfest hann í samtali við fréttastofu.

Mál Atla Rafns vakti mikla athygli á sínum tíma og hann sagðist sjálfur í skýrslutöku sinni fyri héraðsdómi aldrei hafa orðið jafn hissa og þegar honum var sagt upp. „Mig dreymdi þetta næstum því á hverri nóttu.“

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, sagði uppsögnina hafa verið óhjákvæmilega. Fjórir einstaklingar sem hefðu starfað í leikhúsinu á þessum tíma hefðu upplifað mikinn ótta, kvíða og vanlíðan við að mæta í vinnuna.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV