Launavísitalan hækkað um 7,9% á síðustu 12 mánuðum

23.09.2021 - 08:11
Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Laun hækkuðu að jafnaði um 0,3 prósent í ágúst 2021 frá fyrri mánuði samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 7,9 prósent og frá ársbyrjun og fram í ágúst hækkaði hún um 5,7 prósent.

Launavísitalan mælir breytingar á tímakaupi sem greitt er fyrir umsaminn vinnutíma. Hún er reiknuð út frá upplýsingum um laun, launakostnað, greiddar stundir og ýmsa bakgrunnsþætti.

Mest hækkaði vísitalan í janúar á þessu ári þegar laun hækkuðu um 3,7 prósent. „Þá hækkun má að mestu rekja til ákvæða kjarasamninga sem náðu til meirihluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði,“ segir á vef Hagstofunnar. Á árinu hafi gætt áhrifa vegna styttingar vinnuvikunnar til hækkunar launavísitölu en einungis hjá opinberum starfsmönnum.

Laun hækkað um 16,8 prósent á almennum vinnumarkaði

Í úttekt Hagstofunnar kemur fram að frá janúar 2019 til júní 2021 hafi laun, samkvæmt launavísitölu, hækkað um 16,8 prósent á almennum vinnumarkaði, 19,2 prósent hjá ríkisstarfsmönnum og 25,2 prósent hjá starfsfólki sveitarfélaga. Tekið er fram að hækkanir launþegahópa hafi komið inn á ólíkum tímum vegna mismunandi tímasetninga í kjarasamningum og að það hafi áhrif á samanburðinn.

„Hlutfallsleg launahækkun starfsmanna sveitarfélaga hefur verið meiri en hjá bæði ríkisstarfsmönnum og starfsfólki á almennum vinnumarkaði frá því að kjarasamningar komu til framkvæmda árið 2020. Í því samhengi er vert að hafa í huga að kjarasamningar sem kveða á um krónutöluhækkanir fela í sér að lægri laun hækka hlutfallslega meira en hærri laun. Samanburður á launastigi launþegahópa sýnir að laun starfsfólks sveitarfélaga eru að jafnaði lægst sem skýrir hærri hlutfallslega hækkun launa í þeim hópi,“ segir í úttektinni.

Þá kemur fram að laun opinberra starfsmanna hafi að jafnaði hækkað meira en starfsmanna á almenna markaðnum vegna styttingu vinnuvikunnar. „Launaþróun samkvæmt launavísitölu byggir á verði vinnustundar og getur stytting vinnuvikunnar umfram niðurfellingu á neysluhléum verið ígildi launabreytinga. Þegar greiddum stundum fækkar en laun haldast óbreytt hækkar launavísitala,“ segir á vef Hagstofunnar.