Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Koeman orðinn verulega valtur í sessi

epa09484490 FC Barcelona´s striker Memphis Depay reacts during the Spanish LaLiga soccer match between Cadiz CF and FC Barcelona at Nuevo Mirandilla stadium in Cadiz, Andalusia, Spain, 23 September 2021.  EPA-EFE/ROMAN RIOS
 Mynd: EPA-EFE - EFE

Koeman orðinn verulega valtur í sessi

23.09.2021 - 23:29
Þriðja leikinn í röð mistókst stórliði Barcelona að landa sigri og staða þjálfarans, hins hollenska Ronald Koeman, er orðin verulega tvísýn. Liðið situr sem stendur í 7. sæti spæsku úrvalsdeildarinnar.

Liðið lék í kvöld við Cadíz sem situr í 14. sæti Primera Liga og náði aðeins markalausu jafntefli. Ekki er nóg með að úrslitin hafi látið á sér standa það sem af er tímabils hjá Barcelona heldur þykir leikstíll liðsins bragðdaufur og óspennandi.

Landi Koemans, miðjumaðurinn Frenkie De Jong, fékk að fara í snemmbært bað með rautt spjall á 65. mínútu og sjálfur fékk þjálfarinn svo að sjá rautt í uppbótartíma. Þá fékk þriðji Hollendingurinn hjá liðinu, Memphis Depay, afleita dóma fyrir leik sinn í spænskum miðlum.

Forseti félagsins, Joan Laporta, hefur hingað til stutt Koeman með ráðum og dáð en nú þykir líklegt að mælirinn fyllist senn og stuðningsmenn liðsins, sem eru vanir leiftrandi sóknarbolta og slag um stærstu titlana á ári hverju, eru búnir að fá sig fullsadda. Þeir vanda þjálfaranum ekki kveðjurnar á samfélagsmiðlum eftir leik kvöldsins og segja stöðu þessa fornfræga og sigursæla stórliðs hreina hneisu.

Vegna rauða spjaldsins í kvöld er ljóst að Ronald Koeman verður ekki á hliðarlínunni næstkomandi sunnudag þegar liðið mætir Levante á Nývangi, heimavelli Börsunga. Hvort hann á yfirleitt afturkvæmt úr banninu er alls óvíst og ef liðinu tekst ekki að rétta úr kútnum hið snarasta verður stjóratíð hans hjá Barcelona vart mikið lengri.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ófarir Barcelona halda áfram

Fótbolti

Bale byrjaði hjá Real Madrid - Barcelona enn í vanda

Fótbolti

Brotthvarf Messi langt því frá að duga Barcelona

Fótbolti

Messi á förum frá Barcelona