Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fengu aðra ábendingu um meint kynferðisbrot í júní

23.09.2021 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Knattspyrnusamband Íslands fékk í júní ábendingu um meint kynferðsbrot tveggja landsliðsmanna eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn árið 2010. Ekki liggur fyrir hvort málið hafi farið í sérstakan verkferil þegar ábendingin barst.

Kjarninn greinir frá þessu og hefur eftir Ómari Smárasyni, deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ, að seinnipart sumars, eftir viðtal við Guðna Bergsson þáverandi formann sambandsins í Kastljósi, hafi aftur borist skrifleg ábending. „Frá KSÍ séð var formaðurinn með það mál á sínu borði. Við höfum ekki upplýsingar um það hvort KSÍ hafi haft einhverja sérstaka vitneskju um það mál fyrir þann tíma,“ segir Ómar.

Guðni sagði í Kastljósi í ágúst að engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð Knattspyrnusambands Íslands. Hann sagði síðar að þau ummæli hefðu verið mistök.

Íþróttasamband Íslands hefur skipað nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna mála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands. 

Fram kemur í tilkynningu frá ÍSÍ að nefndin eigi að fara yfir þá atburðarás sem leiddi til afsagnar formanns og fyrirhugaðrar afsagnar stjórnar KSÍ í september ásamt því að bregðast við ásökunum sem fram hafa komið, meðal annars um þöggun innan KSÍ.