Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eru orðin þreytt á „hvítrar konu saknað“-heilkenninu

23.09.2021 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: North Port Police - RÚV
Fjölskyldur þeldökkra Bandaríkjamanna sem horfið hafa sporlaust segjast eiga í miklum erfiðleikum með að ná athygli almennings. Sumir ættingjanna segjast vera orðnir vonsviknir yfir hversu mikla athygli mál hvítra kvenna á borð við Gabby Petito fá meðan lögregla aðhefst lítið í leit að týndum ættingjum þeirra og flokka þá jafnvel sem strokupilta og -stúlkur.

David Robinson hefur leitað 24 ára sonar síns, Daniels, í Arizona-ríki síðastliðna þrjá mánuði. Ekkert hefur spurst til Daniels frá því hann yfirgaf vettvang þar sem hann var við störf í eyðimörk. Hann ók burt á jeppa 23. júní sl. Faðir hans réð einkaspæjara og setti saman leitarflokk af því að honum fannst lögreglunni ekkert hafa orðið ágengt við leitina. Þá reyndi hann að ná eyrum fjölmiðla með litlum árangri, segir í frétt CNN.

Sárnar hve litla athygli mál sonarins fær í samanburði við Gabby

Robinson segist hafa samúð með fjölskyldu Gabby Petito, en lík hennar fannst á sunnudag. Það vakti mikla athygli víða um heim þegar Petito hvarf en hún hafði greint frá ferðalagi sínu og unnusta síns um þjóðgarða í Bandaríkjunum. 

Robinson segir að engu að síður sárni honum að litið sé á mál ungrar hvítrar konu sem miklu brýnna heldur en hvarf þeldökks sonar síns. „Maður óskar þess að lifa í heimi þar sem allir eru jafnir en það er alls ekki þannig,“ segir Robinson í samtali við CNN.

Rannsókn staðfestir heilkennið

Sérfræðingar hafa bent á að bandaríska þjóðin þjáist af „hvítrar konu saknað“-heilkenninu sem er skilgreint þannig að þegar hvítar konur og stúlkur hverfa vekur það miklu meiri athygli fjölmiðla en þegar einhver sem ekki tilheyrir þessum hópi hverfur sporlaust. Rannsókn sem unnin var af lagadeild Northwestern-háskólans 2016 staðfesti þetta. Hvarf þeldökkra Bandaríkjamanna er miklu ólíklegra til að vekja athygli fjölmiðla. 

Zach Sommers er afbrotafræðingur og einn þeirra sem stýrði rannsókn Northwestern-háskólans. Hann bendir á að menning bandarísku þjóðarinnar sé þannig að margir séu mjög fúsir til að samþykkja frásagnir af hvítu fólki sem fórnarlömbum og einhverjum sem fólki eigi að vera umhugað um. „Þegar við heyrum að hvítrar manneskju sé saknað, þá hugsum við sem svo: Þetta gæti verið dóttir mín, nágranni minn, frændi eða vinur. Við samsömum okkur þessari manneskju og við erum líklegri til að lesa fréttina eða frásögnina en ef þetta væri þeldökk manneskja,“ segir Sommers.

Hlutfallslega miklu fleiri þeldökkir sem hverfa

Þó svo að mál hvítra kvenna sem er saknað fái mikla athygli og þyki mjög brýn þá er það hlutfallslega mun algengara að fólk dökkt á hörund hverfi. Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, eru 35% þeirra sem leitað er að þeldökkt fólk en þeldökkir eru aðeins 13% bandarísku þjóðarinnar. Ríflega helmingur þeirra sem leitað er, eða 54%, er hvítt fólk. Það er hins vegar 76% bandarísku þjóðarinnar.