Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Auglýsingar úti um allt

23.09.2021 - 07:35
Mynd: Kristján Sigurjónsson / Kristján Sigurjónsson
Umgjörð kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningar hefur gjörbreyst á undanförnum árum og varla hægt að bera saman aðdraganda kosninga nú og kosninga rétt fyrir og eftir síðustu aldamót.  Þetta segja Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Einar K Guðfinnsson fyrrverandi þingmenn og fyrrverandi forsetar Alþings.

Covid takmarkar kosningabaráttuna

Þau voru gestir Spegilsins og ræddu kosningabaráttuna, yfirbragð hennar, samanburð við fyrri kosningar. Einar segir að kosningabaráttan hafi farið seinna af stað núna en áður og þar hefur Covid faraldurinn auðvitað haft sín áhrif. Hann takmarki fundahöld, fyrirtækjaheimsóknir og að frambjóðendur hitti kjósendur augliti til auglits.

Er „bara" á Facebook

„Þá hefur orðið gríðarleg breyting með þessari byltingu í samfélagsmiðlum. Og kosningabaráttan er háð, eftir því sem mér skilst, mjög mikið í gegnum þá. Ég er af gamla skólanum, ég er „bara" á Facebook" segir Einar og kveðst hafa verið neyddur af stuðningsmönnum til þess að fara þangað árið 2013. Þá ætlaði hann að einungis að skrifa greinar í blöð og halda ræður á framboðsfundum í aðdraganda alþingiskosninga, en var vinsamlegast bent á að það gengi ekkert lengur. Núna sé kosningabaráttan háð á einhverjum síðum og miðlum sem hann hafi ekki hugmynd um. 

Gjörbreyting með auglýsingum 

„Það sem mér finnst hafa einkennt þessa kosningabaráttu, eins og ég sé hana, eru þessar rosalegu auglýsingar. Það eru auglýsingar alls staðar. Þetta var ekki svona, nema að Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti svolítið mikið. Vinstri flokkarnir héldu að sér höndum af því að þeir þurftu að safna fé til að auglýsa. En núna fá flokkarnir greiðslu úr ríkissjóði til að sinna kosningabaráttu. Þetta hefur gjörbreyst" segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. 

Ásta Ragnheiður og Einar ræddu einnig flokkafjöldann í framboði og hvernig starfið á Alþingi yrði ef jafnvel frambjóðendur níu flokkar næðu kjöri. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV