Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ætti að stytta bið eftir geðheilbrigðisþjónustu barna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Barna- og unglingageðteymi Sjúkrahússins á Akureyri hefur fengið 13 milljóna króna fjármagn frá heilbrigðisráðuneytinu til að efla tímabundið þjónustuna. Um er að ræða átaksverkefni ráðuneytisins við að stytta bið barna og unglinga eftir greiningu og meðferð.

 

Biðlistar hafa lengst

Á Akureyri hefur frá vorinu 2014 verið starfandi Barna- og unglingageðteymi á Sjúkrahúsinu. Alice Harpa Björgvinsdóttir sem er framkvæmdastjóri Lyflækningasviðs á Sjúkrahúsinu sem fer með geðheilbrigðismál, segir að teymið sé lítið og hafi ekki náð að sinna öllu því sem það ætti að vera að sinna. Biðlistar hafa verið að lengjast og sérstaklega í faraldrinum.

„Við sjáum að biðlistar eru að lengjast og það er eitthvað sem við viljum alls ekki sjá. Biðtíminn er í dag um 6 mánuðir bara að komast að í þjónustu,“ segir Alice.

Þyrfti talsvert meira fé

Alice segir að fjármunirnir muni fara í að auka þjónustu við börn og unglinga í geðrænum erfiðleikum og að stytta biðina eftir þjónustunni. Þeir muni þó aðeins duga fyrir tímabundinni aukinni þjónustu.

Alice segir að fleira þyrfti til heldur en tímabundið átak líkt og það sem heilbrigðisráðuneytið hefur nú ráðist í. „Við erum að eyða svona 41 milljón í þennan málaflokk og ég myndi segja það þyrfti talsvert að bæta í til að við værum að sinna okkar nærumhverfi hér betur og allt sem við getum gert léttir líka á BUGL svo dæmi sé tekið.“