Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vitni urðu mannsins vör á botni lónsins í Sky Lagoon

22.09.2021 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú andlát karlmanns á þrítugsaldri sem fannst meðvitundarlaus í Sky Lagoon í Kópavogi og lést á Landspítala í gærkvöld. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu urðu vitni vör við manninn þar sem hann lá hreyfingarlaus á botni lónsins.

Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um málið og sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla að rannsókn málsins væri á frumstigi. 

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að myndefni úr eftirlitsmyndavélum verði skoðað, rætt verði vitni og síðan beðið eftir niðurstöðu úr krufningu. Ekki leikur grunur á að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Lögreglan sendi frá sér svohljóðandi yfirlýsingu síðdegis í dag: „Um sexleytið í gær var lögreglan kölluð að Sky Lagoon í Kópavogi vegna karlmanns á þrítugsaldri sem hafði misst meðvitund. Endurlífgunartilraunir hófust strax á vettvangi og var maðurinn, sem var gestkomandi á staðnum, síðan fluttur á Landspítalann, en hann lést svo þar í gærkvöld.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV