Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vilja ekki talibana á allsherjarþingið

22.09.2021 - 17:16
epa09480829 Somalia?s President Mohamed Abdullahi Mohamed Farmajo is seen on a video screen as he addresses the 76th Session of the United Nations General Assembly remotely, in New York City, New York, USA, 21 September 2021.  EPA-EFE/Mary Altaffer / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP
Stjórnvöld í Þýskalandi lýsa sig andvíg því að talibanar fái að ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York, eins og þeir hafa farið fram á. Þó sé rétt að halda tengslum við þá - til þess meðal annars að þrýsta á að þeir virði mannréttindi.

AFP fréttastofan hafði í gær eftir talsmanni Sameinuðu þjóðanna að talibanar hefðu farið fram á að Amir Khan Muttaqi, utanríkisráðherra þeirra, fengi að ávarpa allsherjarþingið. Kjörbréfanefnd hefði fengið beiðnina til meðferðar. 

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, kvaðst telja óviðeigandi að sendinefnd talibana yrði leyft að mæta til allsherjarþingsins, þegar hann ræddi við fréttamenn í New York í dag. Slík leiksýning sagði ráðherrann að skilaði engu. Það sem máli skipti væru ekki orð heldur gjörðir. Nauðsynlegt sagði hann þó að halda tengslum við talibana, til þess meðal annars að þrýsta á að þeir virtu mannréttindi, ekki síst réttindi kvenna. 

Bandaríkjamenn lýstu sig í dag einnig andvíga að hleypa talibönum á allsherjarþingið. Best væri ef kjörbréfanefndin tæki ósk þeirra ekki til meðferðar fyrr en að þinginu loknu á mánudaginn kemur. 
Talibanar náðu völdum í Afganistan um miðjan síðasta mánuð. Engin þjóð hefur til þessa viðurkennt stjórn þeirra. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV