Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sjö mál er varða kynbundna áreitni innan lögreglunnar

22.09.2021 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Ríkislögreglustjóri
Tuttugu og fjögur eineltismál bárust fagráði ríkislögreglustjóra á árunum 2014 til 2020. Sautján þeirra vörðuðu einelti en sjö vörðuðu kynferðislega eða kynbunda áreitni. Fagráðinu er hvorki kunnugt um að meintir gerendur hafi verið látnir sæta ábyrgð fyrir einelti innan lögreglunnar eða að þeim hafi verið sagt upp störfum.

Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins. Þar segir einnig að ekki sé vitað til þess að nokkrum hafi verið sagt upp störfum eftir að hafa tilkynnt einelti eða brot á almennum siðareglum. 

Í svörum ráðherra segir einnig að mál sem varði einelti eða aðra ótilhlýðilega háttsemi beri að taka alvarlega og leiða til lykta. Um mitt ár 2014 hafi ríkislögreglustjóri stofnað fagráð lögreglu sem hafi það hlutverk að taka til umfjöllunar mál sem varða beina og óbeina mismunun, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti. Hlutverk fagráðsins sé að taka við, meta, koma í viðeigandi farveg og fylgja eftir tilkynningum sem ráðinu berast og tryggja að þær fái viðeigandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðsins og landslögum.