Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sagt upp eftir að hafa kvartað og höfðað dómsmál

Mynd með færslu
 Mynd: Safnahús Borgarfjarðar
Guðrúnu Jónsdóttur, forstöðumanni Safnahúss Borgarfjarðar til fimmtán ára, var í gær tilkynnt af forseta sveitarstjórnar að henni yrði sagt upp störfum. Uppsögnin kemur í kjölfar þess að Guðrún kvartaði undan einelti af hálfu sveitarstjóra og höfðaði dómsmál gegn Borgarbyggð í byrjun mánaðarins til að ógilda áminningu sem henni var veitt í mars á þessu ári.

Eineltisásakanir 

Samkvæmt heimildum fréttastofu var Guðrúnu veitt áminning fyrir að fara ekki að tilmælum sveitarstjórans, Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur, og eftir að eineltisásökun barst á hendur henni. Guðrún var ósátt við að sveitarstjórinn hefði haldið áfram að láta rannsaka ásökunina eftir að niðurstaða úr rannsókn á málinu lá fyrir, um að einelti hefði ekki átt sér stað, og skilaði nýlega andmælum um niðurstöðu nýrrar rannsóknar á sama máli. 

Guðrún kvartaði svo undan einelti af hálfu Þórdísar Sifjar um miðjan ágúst og sakar hana meðal annars um að hafa ítrekað hunsað sig sem forstöðumann við ákvarðanatöku. Henni var svo tilkynnt í gær að henni yrði sagt upp störfum. 

Í nýrri færslu á Facebook segir Guðrún uppsögnina þungbæra, ekki síst í ljósi þess að hún komi í beinu framhaldi af dómsmáli sem hún höfðaði gegn sveitarstjórninni og kvörtun yfir sveitarstjóranum. Hún segist sátt við störf sín fyrir safnið og því að hafa staðið með menningararfi Borgfirðinga og nágranna þeirra. Hún yfirgefi starfið með trega en taki með sér fallegar minningar. 

Sveitarstjórinn hafnar eineltisásökuninni

Þórdís Sif birti einnig færslu um málið á Facebook í dag þar sem hún hafnar alfarið eineltisásökunum Guðrúnar. „Ég hef verið ásökuð um einelti í starfi mínu sem sveitarstjóri gagnvart starfsmanni. Mér þykir miður að starfsmaðurinn hafi upplifað einelti af minni hálfu,“ segir í færslunni, þar sem hún tjáir sig hvorki um það hvaða starfsmann málið varðar né um hvað málið snýst. Hvorki forseti sveitarstjórnar né formaður byggðarráðs vilja tjá sig um málið.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV