Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rannsókn á brunanum í Grímsey hefst í dag

22.09.2021 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Rannsókn á brunanum í Miðgarðakirkju hefst í dag þegar tæknimenn frá lögreglu, Mannvirkjastofnun og slökkviliði fara til Grímseyjar. Bæjarstjórinn á Akureyri segir að sveitarfélagið muni standa þétt við bakið á Grímseyingum og aðstoða þá við að taka ákvörðun um framhaldið.

Klukkan eitt fljúga til Grímseyjar tæknimenn frá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, rannsóknarlögreglumaður frá lögreglunni á Akureyri og fulltrúar frá Mannvirkjastofnun og Slökkviliðinu á Akureyri.

Þar með hefst rannsókn á brunanum í Miðgarðakirkju. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, segir ekkert hægt að segja um eldsupptök fyrr en rannsókn hefur farið fram.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan óðinsson
Kirkjutröppurnar einar standa eftir

„Kirkja í svona litlu samfélagi skiptir svo miklu máli“

Þá fara einnig til Grímseyjar tveir prestar Dalvíkurprestakalls, sem Miðgarðakirkja tilheyrir, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri. „Grímseyingar eru íbúar Akureyrarbæjar og það er algerlega nauðsynlegt að fara og hitta fólkið í kjölfarið á svona áfalli eins og varð þar í nótt. Kirkja í svona litlu samfélagi skiptir svo miklu máli. Þetta er sameign íbúanna og hinn stóri fasti punktur í samfélaginu. Þannig að þetta er mikið áfall og mikið menningarlegt áfall.“

„Styðjum við íbúana á svona stundu“

Hún segist hafa hringt út í Grímsey í gærkvöld og þeir sem hún ræddi við hafi eðlilega verið í miklu áfalli. Dagurinn í dag verði erfiður fyrir íbúana. „Það er mitt hlutverk að reyna að styðja við bakið á þeim eins og ég get gert.“ Og sveitarfélagið geri það sömuleiðis. „Við að sjálfsögðu styðjum við íbúana á svona stundu og aðstoðum við það að taka ákvörðun um framhaldið og hvað þeir vilja gera til frambúðar.“