Grímseyingar í áfalli eftir nóttina

22.09.2021 - 07:51
Mynd með færslu
 Mynd: Henning Henningsson
„Þetta var náttúrulega bara alveg skelfilegt. Fólkið þarna heima á miklar minningar úr þessu húsi eins og gefur að skilja, bæði gleði og sorg,“ segir Alfreð Garðarson, sem situr í sóknarnefnd Miðgarðakirkju í Grímsey sem brann til grunna í nótt.

Ekkert er vitað um upptök eldsins og ekki er talið að einhver hafi verið í kirkjunni þegar útkall barst. Alfreð segir að fljótt hafi verið ljóst að kirkjan væri orðin alelda og að ekki væri við neitt ráðið. Sóknarnefndin hefur ekki ákveðið næstu skref.

„Við heyrðumst í gærkvöldi og þá voru bara allir að jafna sig á þessu og miður sín,“ segir Alfreð. „Við höfum félagsheimili hérna þar sem hægt er að halda guðsþjónustu en það hefur verið lítil starfsemi undanfarið út af COVID, en það er ekki nema hálfur mánuður síðan það var jarðarför,“ segir hann.

Kirkjan var reist árið 1867. Hún var færð um lengd sína vegna eldhættu árið 1932, og var um leið byggður við hana kór og forkirkja með turni, segir á vefnum gardur.is. Gagngerar endurbætur voru gerðar á henni árið 1956 og var hún þá endurvígð. 

„Það voru alveg rosalega margir fallegir munir þarna. Djákninn sem var þarna hjá okkur um miðja síðustu öld skar út skírnarfont og ýmsa mjög fallega gripi. Svo var náttúrulega allt sem kirkjan átti þarna á staðnum, gestabækur frá því í gamla daga og alls konar munir,“ segir Alfreð.

„Þetta er tilfinningalegt. Fólki líður illa yfir þessu og enginn veit neitt. Ég veit ekki hvort það verður hægt að komast að miklu því það er allt brunnið sem brunnið gat,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Henning Henningsson
Mynd með færslu
 Mynd: Henning Henningsson
Mynd með færslu
 Mynd: Henning Henningsson
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV