Greining segir mikla arðsemi af lagningu Sundabrautar

22.09.2021 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Vinna við félagshagfræðilega greiningu framkvæmda við Sundabraut er nú langt komin og liggja fyrir drög að niðurstöðum sem eru til umfjöllunar í starfshópi um legu brautarinnar. Niðurstöðurnar benda til að arðsemi Sundabrautar sé mikil.

Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Þar er haft eftir Guðmundi Val Guðmundssyni, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Vegagerðarinnar og formanni starfshópsins, að meginávinningurinn sé sparnaður í ferðatíma vegfarenda svo og minni akstursvegalengdir en umferðarlíkön gera ráð fyrir að við opnun brautarinnar geti heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu minnkað um tæplega 60 milljónir kílómetra árlega eða um 160 þúsund kílómetra á sólarhring.

„Tímasparnaður og styttri vegalengdir leiða jafnframt af sér minni útblástur kolefnis, færri slys, minni hávaða og minni mengun. Allt þetta á við hvort sem um er að ræða Sundabrú eða Sundagöng,“ segir Guðmundur Valur einnig á vef Vegagerðarinnar.

Í greinargerð starfshóps frá því í janúar 2021 voru svokallaðir innri vextir Sundabrúar metnir yfir 10%. Hefðbundin viðmið um að verkefni séu talin fýsileg eru að innri vextir séu yfir 3,5%. Ábati notenda Sundabrautar, hvort sem er akandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum telst því verulegur samkvæmt greinargerðinni.