Framtíð frjálsíþróttanna best borgið á nýjum leikvangi

Mynd með færslu
 Mynd: Frjálsíþróttasamband Ísland

Framtíð frjálsíþróttanna best borgið á nýjum leikvangi

22.09.2021 - 14:24
Starfshópur um þjóðarleikvagn fyrir frjálsíþróttir skilaði í dag tillögum sínum og greinargerð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í skýrslu hópsins er lagt til að nýr frjálsíþróttaleikvangur rísi austan við núverandi frjálsíþróttahöll við Engjaveg í Laugardal.

Starfshópurinn var skipaður síðasta vetur og honum falið að afla upplýsinga um þarfir fyrir íþróttamannvirki til lengri tíma. Í skýrslu hópsins, sem kemur út á næstu dögum, er komist að þeirri niðurstöðu að ef þjóðarleikvangur knattspyrnunnar verði áfram á Laugardalsvelli yrði best að koma upp nýjum frjálsíþróttaleikvangi austan við frjálsíþróttahöllina við Engjaveg sem myndi þá tengjast núverandi frjálsíþróttahöll og öðrum opnum svæðum í Laugardal. 

Mannvirkið myndi nýtast í alþjóðlegu keppnishaldi og á stærri mótum Frjálsíþróttasambandsins og Íþróttasambands fatlaðra, sem og í afreksæfingar og æfingar barna-, unglinga og annarra í hverfisfélögum Reykjavíkur. Möguleiki væri einnig að nýta mannvirkið sem hluta af afreksíþróttamiðstöð í Laugardalnum, þar sem væri hægt að koma fyrir aðstöðu fyrir rannsóknir, þjálfun og kennslu í skólum. Fyrstu áætlanir starfshópsins gera ráð fyrir um tveimur milljörðum í stofnkostnað þjóðarleikvangsins. 

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands og formaður starfshópsins, segir samstarfið innan hópsins hafa verið einstaklega gott og gleðilegt sé að komin sé fram þessi sameiginlega niðurstaða. „Það hefur sýnt sig undanfarin misseri hvað það er mikilvægt að frjálsíþróttafólk geti æft og keppt óháð öðrum íþróttum og viðburðum. Nú erum við með einstakt tækifæri til að tryggja það til framtíðar.“ Efniviðurinn sé orðinn góður og tími til kominn að hefja uppbyggingu í Laugardalnum. 

Lesa má nánar um tillögur hópsins á vef stjórnarráðsins.