Tré rifnaði upp með rótum í óveðrinu

21.09.2021 - 20:44
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Bjarnason - aðsend mynd
Tré rifnuðu upp með rótum á Suðurlandi í dag. Á Reykjabæjunum á Skeiðum rifnaði ösp upp með rótum og má sjá mynd af henni með þessari frétt. Aftakaveður var víða um land í dag og appelsínugular veðurviðvaranir í gildi.

Mjög hvasst var á Suðurlandi í dag. Hjá Ingu Birnu Ingólfsdóttur, á Hlemmiskeiði, rifnaði ofan af tveimur öspum. Þar var mjög hvasst í um klukkutíma eftir hádegi en veðrið er mun skaplegra núna. Þar er engin viðvörun í gildi sem stendur. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu rifnaði einnig tré upp í Hrunamannahreppi í rokinu í dag.  

Björgunarsveitum víða um landið bárust fjöldi tilkynninga í dag, mörg þeirra vegna fjúkandi trampólína og annarra lausamuna. Þá var eitthvað um bílstjóra í vandræðum vegna færðar og veðurs. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Bjarnason - aðsend mynd