Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sú fyrsta appelsínugula á höfuðborgarsvæðinu í um ár

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RUV
Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi um allt land. Stormi er spáð eftir klukkan tvö á höfuðborgarsvæðinu og varasamt ferðaveður er á öllu landinu. Þetta er fyrsta appelsínugula viðvörunin á höfuðborgarsvæðinu í um ár.

Sunnan- og austanvert landið, auk Vestfjarða er appelsínugult fram eftir degi vegna suðvestan storms, allt að 28 metrum á sekúndu. Og fyrir norðan og vestan er landið gult vegna hvassrar suðaustanáttar og talsverðrar rigningar.

Búist er við norðvestan hvassviðri eða stormi á höfuðborgarsvæðinu eftir hádegi og er fólk er varað við því að vera á ferðinni, einkum við há hús. Á Suðurlandi er búist við snörpum vindhviðum við fjöll, allt að 40 metrum á sekúndu undir Eyjafjöllum.

„Það er líklega svona hátt í ár síðan við vorum með appelsínugula viðvörun hér síðast,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Hvað veldur? „Það er djúp lægð rétt vestur af höfuðborgarsvæðinu, hún hefur verið að færast nær landi, sem gengur frá Reykjanesi yfir á Tröllaskaga og síðan áfram í norðaustur í dag og það er mjög hvasst sunnan þessarar lægðarmiðju og það verður mjög hvöss vestanátt í dag eftir hádegi og fram eftir degi.“

Elín segir ráðlegt að bíða með ferðalög til morguns. „Almennt er best að láta þessa lægð bara líða hjá áður en fólk ætlar að fara að hreyfa sig á milli staða. Viðvaranirnar ganga meira eða minna úr gildi annaðhvort síðdegis eða í kvöld og svo er miklu betra  veður á morgun.“