Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skipherra í leyfi vegna gruns um kynferðislega áreitni

21.09.2021 - 22:06
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Skipherra á varðskipi Landhelgisgæslunnar hefur verið settur í leyfi vegna gruns um kynferðislega áreitni. Samkvæmt heimildum fréttastofu er það skipherra á gamla varðskipinu Tý sem um ræðir. Í skriflegu svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Fréttastofu RÚV segir að nú séu samskipti um borð rannsökuð.

Fréttastofa RÚV sendi fyrirspurn á Landhelgisgæsluna eftir að hafa fengið ávæning af málinu. Í skriflegu svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn fréttastofu segir að rannsókn standi yfir á samskiptum um borð í einu af skipum Gæslunnar. „Ástæða rannsóknarinnar eru ábendingar sem bárust stjórnendum Landhelgisgæslunnar um helgina vegna gruns um kynferðislega áreitni,“ segir í svari Gæslunnar. Á föstudag birtist umfjöllun í Mannlífi þar sem sagt var að konur væru bæði áreittar og niðurlægðar á skipum Landhelgisgæslunnar.

Samskipti um borð rannsökuð

Í svari Gæslunnar við fyrirspurn RÚV segir að einn af skipherrum Landhelgisgæslunnar sé kominn í leyfi meðan samskipti um borð í skipinu séu rannsökuð. Þá segir í svarinu að málið sé litið alvarlegum augum og Landhelgisgæslan hafi brugðist við. Ennfremur að málsatvik séu nú rannsökuð nánar.

Samkvæmt heimildum Fréttastofu RÚV er það skipherra varðskipsins Týs sem er kominn í leyfi og annar verið fenginn til að gegna hans stöðu. Þá herma heimildir fréttastofu að þolendurnir í málinu sem nú er til rannsóknar séu tvær ungar konur í áhöfn varðskipsins. 

Ekki öllum spurningum svarað

Fréttastofa beindi fleiri spurningum til Landhelgisgæslunnar um málið, meðal annars um hvenær meint brot hefðu átt sér stað og hvort þau hefðu staðið yfir í langan tíma. Einnig á hvaða aldri brotaþolar eru og hvort fleiri mál séu í vinnslu hjá Landhelgisgæslunni. Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar var ekki hægt að veita svör við þessum spurningum, meðal annars af tillitsemi við þolendur.