Rússar bera ábyrgð á dauða Litvinenko

21.09.2021 - 08:55
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í morgun að rússnesk stjórnvöld bæru ábyrgð á dauða Alexanders Litvinenkos, fyrrum njósnara rússnesku leyniþjónustunnar. Litvinenko lést á sjúkrahúsi í Lundúnum í nóvember 2006, en talið er að eitrað hafi verið fyrir honum skömmu áður.

Eitrað var fyrir Litvinenko með geislavirka efninu póloni. Samkvæmt úrskurði mannréttindadómstólsins er það hafið yfir allan vafa að Andrei Logovoi og Dmitry Kovtun hefðu eitrað fyrir Litvinenko, og það væri líklegt að þeir hefðu fengið fyrirmæli um það frá rússneskum stjórnvöldum. Í úrskurðinum segir greinilegt að tilræðið hafi verið þaulskipulagt. Rússnesk stjórnvöld segjast hafna þessari niðurstöðu því hún byggi ekki á neinum raunverulegum sönnunargögnum. 

Þeir Lugavoi og Kovtun hafa um árabil verið sakaðir um að hafa sett geislavirkt efni í drykk Litvinenkos á hóteli í Lundúnum 2006. Þetta kom meðal annars fram í skýrslu sem unnin var fyrir bresk stjórnvöld. Lugavoi sagði við BBC að það væri ekkert nýtt í skýrslunni sem birt var tíu árum eftir að Litvinenko lést. „Ég sá ekkert nýtt í henni. Mér þykir leitt að ekkert nýtt komi fram eftir þessi tíu ár, aðeins tilbúningur, ágiskanir og sögusagnir," sagði Lugovoi við BBC.