Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hæstiréttur Mexíkó breytir enn reglum um þungunarrof

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Pixabay
Hæstiréttur í Mexíkó úrskurðaði í dag að sá réttur sem heilbrigðisstarfsfólki er tryggður með lögum að neita konu um þungunarrof af samviskuástæðum tefldi réttindum hennar í hættu.

Þetta er enn einn úrskurður hæstaréttar sem miðar að því að fjarlægja hindranir til þungunarrofs í ríkinu.

Í niðurstöðu réttarins segir meðal annars að með lagaákvæðinu væri heilbrigðisstarfsfólki í sjálfsvald sett að neita manneskju um heilbrigðisþjónustu.

Það stangaðist á við stjórnarskrá landsins. Hins vegar væri ekki hægt að afnema með öllu rétt starfsfólks til að hafna því að veita þjónustu af samviskuástæðum. Rétturinn kemur saman á morgun til að móta reglur um hvernig því skuli framfylgt. 

Fyrr í mánuðinum úrskurðaði rétturinn að óheimilt væri að refsa konum fyrir að láta rjúfa meðgöngu. Það gæti gert konum kleift að óska eftir þungunarrofi í öllum fylkjum Mexíkó án þess að eiga yfir höfði sér refsingu.

Þungunarrof á fyrstu tólf vikum meðgöngu hefur verið aflæpavætt með lögum í fjórum af 32 fylkjum landsins, þar á meðal í Mexíkóborg. Annars staðar í landinu þarf dómsúrskurður að liggja fyrir áður en til þungunarrofs kemur. 

Nýlega úrskurðaði rétturinn einnig að lög sem kveða á um að líf hefjist við getnað stangist á við stjórnarskrá. Þannig var þungunarrofi jafnað við morð.