Guðmundur tekur við þjálfun Federicia í Danmörku

epa08952132 Iceland's head coach Gudmundur Gudmundsson reacts during the match between Switzerland and Iceland at the 27th Men's Handball World Championship in Cairo, Egypt, 20 January 2021.  EPA-EFE/Petr Josek / POOL
 Mynd: EPA

Guðmundur tekur við þjálfun Federicia í Danmörku

21.09.2021 - 14:29
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, er búinn að skrifa undir samning við Federicia í dönsku úrvalsdeildinni. Hann tekur við liðinu eftir næsta tímabil en vill ekki svara því hvort hann hyggist halda áfram þjálfun íslenska liðsins samhliða því.

Danski miðillinn TV 2 greinir frá ráðningu Guðmundar. Guðmundur tók við Melsungen snemma á síðasta ári en var látinn fara frá félaginu í gær vegna vonbrigða með frammistöðu liðsins. Guðmundur þekkir ágætlega til í Danmörku en hann stýrði danska karlalandsliðinu í handbolta frá 2014-2017 og GOG í dönsku deildinni 2009-2010.

Guðmundur tekur við Federicia eftir næstu leiktíð, sumarið 2022. „Guðmundur er þjálfari í hæsta gæðaflokki. Hann hefur þjálfað bæði félagslið og landslið með góðum árangri til lengri tíma og við höfum því háar væntingar til hans hér hjá Fredericia,“ segir Thomas Renneberg-Larsen, framkvæmdastjóri félagsins, í viðtali við TV 2.

Þá segist Guðmundur spenntur fyrir komandi tímum. „Ég elska að byggja upp lið og ég held að það hafi verið gert á mjög skynsaman hátt hjá Federicia. Með því að taka eitt skref í einu og félagið mun berjast um titla eftir um það bil þrjú ár,“ segir hann. Guðmundur, sem stýrir íslenska landsliðinu á EM í handbolta í janúar næstkomandi, er þá spurður að því hvort hann ætli að halda áfram að stýra íslenska landsliðinu samhliða þjálfun Fredericia. “Ég vil ekki svara því núna. Það er ekki rétti tíminn til að tala um það,“ segir Guðmundur í viðtalinu.