Fyrirskipa aftöku þrátt fyrir miklar efasemdir um sekt

Mynd með færslu
 Mynd: Creative commons
Dómstóll í Oklahóma-ríki í Bandaríkjunum hefur fyrirskipað að taka skuli fanga af lífi í nóvember næstkomandi. Þó eru uppi miklar efasemdir um sekt mannsins.

Julius Jones, 41 árs blökkumaður, var dæmdur til dauða árið 2002 fyrir að hafa orðið kaupsýslumanni að bana. Jones hefur alltaf neitað sök í málinu og segir að morðinginn hafi varpað sök á hann.

Hann segir einnig að sér hafi verið mismunað mjög við réttarhöldin forðum og að lögmaður hans hafi kastað til höndum við málsvörnina. Mál Jones hefur vakið mikla athygli, heimildamyndaröð var gerð um það og einnig hlaðvarpsþættir.

Frægðarfólk hefur einnig lýst yfir stuðningi við málstað hans, þeirra á meðal raunveruleikastjarnan Kim Kardashian sem segist sannfærð um sakleysi hans. 

Nefnd sem fjallar um reynslulausn fanga í ríkinu mælir með að dómnum verði breytt í lífstíðarfangelsi en Jones sjálfur hefur reynt hvað hann getur að fá niðurstöðunni haggað. 

Lokaákvörðunin liggur hjá Kevin Stitt, ríkisstjóra Oklahóma sem segist ætla að fara í saumana á málinu. Dómstóll ákvað að aftakan yrði 18. nóvember næstkomandi án þess að bíða álits ríkisstjórans. Dagsetningar voru jafnramt ákveðnar fyrir sex aftökur til viðbótar.

Amanda Bass, lögmaður Jones, segir útilokað að ríkið heimili aftöku saklauss manns og hvetur Stitt ríkisstjóra til að snúa ákvörðun dómstólsins við. Enginn fangi hefur verið tekinn af lífi í Oklahóma undanfarin sex ár eftir mikla handvömm við aftöku tveggja manna.

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV