Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frjálslyndi flokkur Trudeaus hafði betur í Kanada

21.09.2021 - 04:18
epa09478672 Canadian Prime Minister and Liberal Party leader Justin Trudeau (R), next to his wife Sophie Gregoire (L), addresses supporters as he celebrates his election victory in Montreal, Quebec, Canada, 20 September 2021. Liberal Party leader Justin Trudeau retained his position as Canadian prime minister in the federal election but will be forced to form a minority government.  EPA-EFE/ERIC BOLTE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frjálslyndi flokkur Justins Trudeaus forsætisráðherra sigraði í þingkosningunum í Kanada. Hann náði þó ekki hreinum meirihluta. Hann þakkaði kjósendum fyrir stuðninginn og andstæðingum fyrir drengilega baráttu.

Trudeau sagðist myndu einbeita sér að koma þjóðinni gegnum kórónuveirufaraldurinn. Hann sagði umboð frá kjósendum vera skýrt, þar sem hann stóð uppi á sviði í Montreal ásamt Sophie eiginkonu sinni og börnum þeirra. Einnig þakkaði hann andstæðingum fyrir baráttuna.

Seinustu kjörstöðum á Kyrrahafsströnd Kanada var lokað klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma. Langar biðraðir mynduðust við kjörstaðir í helstu borgum en kjörstjórnin Elections Canada tilkynnti að þeim sem enn biðu eftir formlega lokun yrði heimilað að kjósa.

Justin Trudeau boðaði heldur óvænt til kosninganna um miðjan ágúst. Minnihlutastjórn hans gekk orðið heldur illa að koma málum gegnum þingið og því greip hann til þessa ráðs.

Hann sagði þá að kjósa þyrfti um hvernig gengið hefði að bregðast við kórónuveirufaraldrinum en tilgangurinn undir niðri er sagður hafa verið að tryggja flokknum meirihluta.

Bakslag í miðri kosningabaráttu

Fjölgun smita með útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuveirunnar setti þó strik í reikning kosningabaráttunnar sem einkenndist af miklum mótmælum gegn bólusetningarstefnu stjórnvalda. 

Það átti einkum við þá stefnu að ákveðnar starfsstéttir verði skyldaðar til bólusetningar gegn COVID-19 og eins því að bólusettir einir megi ferðast með almenningsfarartækjum.

Því var talið líklegt að sagan frá kosningunum 2019 endurtæki sig þar sem Trudeau tókst naumlega að halda völdum með minnihlutastjórn.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Pablo Rodriguez, þingmanni Frjálslyndra að Trudeau njóti áfram fyllsta trausts og stuðnings hvort sem hreinn meirihluti náðist eður ei. 

Barátta á miðjunni

Helsti keppinautur Trudeaus er nýliðinn Erin O'Toole, formaður Íhaldsflokksins. Í kosningabaráttunni var honum legið á hálsi fyrir stuðning við snemmbærar tilslakanir í Alberta-fylki vegna faraldursins.

Einnig létu Kínverjar í sér heyra þegar hann boðaði harða afstöðu til stjórnarstefnu þeirra. Kína er næstmikilvægasta viðskiptaland Kanadamanna. 

Max Cameron, stjórnmálafræðiprófessor við háskólann í Bresku Kólumbíu segir ekki hafa verið greinilegan eða afgerandi mun á málflutningi flokkanna að sjá meðan á kosningabaráttunni stóð, hún hafi einkennst af átökum inni á miðju pólítíska litrófsins. 

Endanlegar niðurstöður liggja mögulega ekki fyrir fyrr en á morgun þar sem óvenju mörg atkvæði voru greidd í pósti vegna kórónuveirufaraldursins.

Fréttin var uppfærð klukkan 6:13 21. september.