Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þúsundir ábendinga um kosningasvik

20.09.2021 - 15:45
epa09461095 Election campaign banners of the United Russia party and Fair Russia party are seen on the street in St. Petersburg, Russia, 11 September 2021.  Elections to the Russian State Duma (Russia's lower house of parliament) will be held from 17 to 19 September 2021.  EPA-EFE/ANATOLY MALTSEV
 Mynd: EPA-EFE
Rússnesk samtök, sem höfðu eftirlit með þingkosningunum í Rússlandi, segja að borist hafi þúsundir ábendinga um kosningasvik og skort á skipulagi. Þegar talningu atkvæða er nánast lokið hefur flokkur Pútíns forseta afgerandi fylgi sem tryggir honum meira en tvo þriðju þingmanna.

Atkvæðagreiðslan stóð í þrjá daga vegna COVID-19 farsóttarinnar,- hófst á föstudag og lauk í gærkvöld. Sameinað Rússland, flokkur Pútíns forseta, lýsti yfir sigri nokkrum klukkustundum eftir að síðustu kjörstöðum var lokað. Þegar nánast öll atkvæði höfðu verið talin á þriðja tímanum í dag hafði flokkurinn tryggt sér nánast helming atkvæðanna og meira en tvo af hverjum þremur þingmönnum sem sæti eiga á rússneska þinginu.

Kommúnistar koma næstir með um það bil nítján prósenta fylgi, samkvæmt upplýsingum kjörstjórnar í Moskvu. Formaður þeirra, Gennedy Zyuganov, segir dæmi um alls kyns kosningasvik, meðal annars að útsendarar Sameinaðs Rússlands hafi fyllt kjörkassa með fölsuðum atkvæðaseðlum.

Golos, rússnesk eftirlitssamtök með kosningum í landinu, segja að þeim hafi borist þúsundir ábendinga um að rangt hafi verið haft við. Innanríkisráðuneytið kannast ekki við neitt og starfsfólk Golos er sakað um að vera útsendarar erlendra ríkja.

Vladimír Pútín þakkaði landsmönnum traustið þegar hann hitti Ellu Pamfilovu, yfirmann landskjörstjórnar síðdegis. Sjónvarpað var frá fundinum. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV