Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skrá tilkynningar um fósturmiska sérstaklega

20.09.2021 - 19:21
Mynd: freestocks.org / Pexels
Átta tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun vegna gruns um að bólusetningar gegn COVID-19 valdi fósturmiska. Forstjóri Lyfjastofnunar segir ekkert benda til að fjöldinn sé umfram það sem áætla mætti í venjulegu árferði. 

Í síðustu sundurliðun Lyfjastofnunar um tilkynningar vegna gruns um alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar við COVID-19, var farið að taka sérstaklega fram tilkynningar er varða fósturmiska. Áður voru þessar tilkynningar taldar með öðrum tilkynningum um alvarlega aukaverkanir. 

„Það er ekkert sem bendir til að tíðni á þessum tilkynntu aukaverkunum sé umfram það sem má ætla í venjulegu árferði og í þessu þýði, konum á þessum aldri,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Í sex tilvikum af þessum átta var um fósturmissi að ræða. Í öllum tilvikum nema einu var meðganga skammt á veg komin eða um 2-8 vikur. Í því tilviki þar sem meðganga var lengra komin hefur rannsókn ekki sýnt fram á að hann tengist bóluefninu.

„En það er bara mjög mikilvægt að fá þessar tilkynningar, þá fara þær inn í gagnabankann sem er mjög gott verkfæri til að fylgjast með því hvort það sé eitthvað athugavert við öryggi og gæði lyfsins og í þessu tilfelli er það bóluefni,“ segir Rúna.

Þrjár tilkynningar hafa borist vegna Pfizer, þrjár, mögulega fjórar vegna Moderna, ein vegna Astra Zeneca og ein vegna bóluefnisins frá Janssen. 

Í sameiginlegum gagnagrunni lyfjastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu hafa samtals komið inn 180 tilkynningar er varða fósturlát eða -miska og þar eru íslensku tilkynningar einnig skráðar. „Og síðan er metið hvort að það sé orsakasamhengi á milli fósturlátsins eða fósturmiskans og það er þá ekki bara byggt á okkar tilkynningum heldur öllum í Evrópu.“

Niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í Jama, tímariti bandarísku læknasamtakanna the American Medical Association, fyrr í þessum mánuði sýna að konur sem hafa verið bólusettar fyrir Covid-19 eru ekki líklegri til að missa fóstur en konur sem ekki hafa verið bólusettar.

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir