Niðursveifla í kauphöllinni í morgun

20.09.2021 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gengi hlutabréfa í öllum félögum í Kauphöllinni hafa lækkað í morgun, mest í Kviku hátt í fimm prósent. Gengi stóru bankanna, bæði Íslandsbanka og Arion banka tók einnig dýfu, sem var um 3,5 prósent. Talið er að hræringar á mörkuðum erlendis sé helsta ástæða lækkunarinnar.

Verð hlutabréfa féll í Kauphöllinni í Hong Kong í morgun. Ástæða þess er afar erfið skuldastaða kínverska fasteignarisans Evergrande. Verð hlutabréfa í Evergrande féll um 17% í morgun en þau hafa farið niður um 90% frá áramótum. Félagið hefur átt í vandræðum með að greiða af skuldum sínum en það er mjög umsvifamikið og því gæti gjaldþrot haft víðtæk áhrif. Fjárfestar hafa þungar áhyggjur af stöðunni og óttast afleiðingar á alþjóðlegum mörkuðum fari Evergrande á hausinn.

Það sem af er degi hafa viðskipti verið mest með bréf í Arion banka, fyrir 730 milljónir króna. Því næst í Kviku fyrir 374 milljónir og í Marel fyrir rúmar 330 milljónir.