Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Heilbrigðismál númer eitt meðal kjósenda allra flokka

prófessor í félagsfræði
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Heilbrigðismálin eru efst í huga kjósenda allra flokka þegar gengið verður til kosninga á laugardaginn. Þetta sýnir ný könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Umhverfismál skipta kjósendur mun meira máli en í fyrri kosningum.

Félagsvísindastofnun kannaði viðhorf Íslendinga til áherslumála kosninganna dagana 2. til 17. september. Voru þátttakendur beðnir um að nefna þrjú mikilvægustu málefnin í aðdraganda kosninga. Einhugur er á meðal kjósenda allra flokka hvaða málefni skiptir þá mestu, það eru heilbrigðismálin. Rúmlega 79 prósent þátttakenda settu heilbrigðismál í fyrsta sæti.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði, telur að faraldurinn skýri þetta að stórum hluta. „Og sú mikla umræða sem hefur átt sér stað um heilbrigðiskerfið og þjónustu heilbrigðiskerfisins í þessum faraldri. Það hefur líka vakið athygli á ýmsu sem mætti betur fara, að fjallað er mikið um heilbrigðiskerfið þannig verður það ofar í huga fólks.“

Næst mikilvægasta málefnið er umhverfismál, 42,4 prósent telja það á meðal mikilvægustu málefna. Þetta er töluverð breyting frá fyrri kosningum en árið 2013 nefndu einungis 8,6 prósent þann málaflokk. Rúnar segir það í tak við aukna fjölmiðlaumfjöllun um umhverfismál. „Það er svona vaxandi skilningur á því að við berum ábyrgð á umhverfinu og þurfum að grípa til aðgerða í málefnum umhverfisins.“

Þau mál sem síst eru ofarlega í huga kjósenda eru byggðamál, Evrópumál og málefni landbúnaðar, en vel innan við 10 prósent telja þau mál mikilvægust. Hvað Evrópumálin varðar eru það einungis kjósendur Viðreisnar sem telja þau á meðal þriggja mikilvægustu málefnanna.

Magnús Geir Eyjólfsson